04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

82. mál, landsverslunin

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer virðist varla ástæða til að taka mál þetta út af dagskrá. Jeg álít það hreinasta óþarfa að eyða heilum degi enn þá fyrir þinginu, til þess að ræða þessar till., sem jeg tel óþarfa. Það er rjett hjá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að ef það, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) telur tilganginn, ætti að liggja í tillögunni, nær hún alls ekki því marki, eins og hún nú er orðuð.

Það er alls ekki heppilegt að koma með svona löguð mál inn á þingið, því það getur aldrei blessast, eins og hv. 2. þm. Árn. (E. Á.) tok fram að setja forstjórum landsverslunarinnar fastar reglur, sem þeir eiga svo að haga sjer eftir.