12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2232)

95. mál, dýrtíðarvinna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hafði reyndar ekki kvatt mjer máls, en hæstv. forseti hefir lesið í hug mjer. Jeg get að vísu ekkert sagt um þessa þingsál.till. fyrir stjórnarinnar hönd. Það hefir ekkert verið um hana talað í ráðuneytinu, og veit jeg ekki heldur, hvernig hæstv. atvinnumálaráðherra lítur á hana, en persónulega get jeg sagt það, að jeg tel rjett að athuga hana, því að jeg hygg hana hvergi nærri svo fráleita, sem sumir hv. þm. virðast halda.

Mjer hefir verið sagt af mönnum, sem hugsað hafa um þetta mál, að það myndi vera dálítið athugavert að ráðast í að gera alla áveituna í einu, vegna þess að áveituvatnið og ýms önnur skilyrði eru ekki fullrannsökuð, og því mundi, eins og hv. flm. (S. S.) segir, gott að byrja með tilraun, en ekki á verkinu í heild sinni. Það mun vera svo, að öll skilyrði fyrir áveitunni eru ekki fyllilega rannsökuð. Þess vegna væri hyggilegra, eins og hv. flm. (S. S.) drap á, áð byrja með eitthvað smærra, og væri svo gert, væri rjettast, að sú tilraun yrði gerð áður en að fullkomlega væri ráðist í verkið, og sýnilegt er, að svo framarlega sem fyrirtækið er nauðsynlegt, er ekki hyggilegt, að þessi tilraun dragist mjög lengi.

Því er að vísu haldið fram, að verk þetta sje mjög dýrt nú, en jeg er þó ekki viss um, að það verði miklu ódýrara að ófriðnum loknum, því að það má ekki búast við, að verkkaup manna falli að mun, svo að á þeim kostnaði myndi ekki sparast svo mjög mikið, en vitanlega verða verkfæri öll, er til þurfa, nokkru ódýrari þá. Jeg hefi að vísu ekki verklega þekkingu á slíku máli sem þessu, en mjer finst, að almenn skynsemi geti litið þannig á það. Jeg vil þess vegna styðja þá till. hv. flm. (S. S.), að málinu verði vísað til nefndar; mundi nefndin þá taka til athugunar þessa grein málsins og aðrar fleiri, sem þá mætti upplýsa, bæði af hv. flm. (S. S.) og öðrum, sem um það hafa fjallað.