01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

77. mál, dýrtíðaruppbót handa Sigurgeiri Gíslasyni

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mjer er kunnugt um það, að nokkur sýslufjelög fá styrk úr landssjóði til sýsluvega. Svo er það t. d. um Suður-Þingeyjarsýslu, sýsluveginn fram Reykjadal og upp í Mývatnssveit. Mjer finst það vera eðlilegast, að vegavinnustjórarnir setji upp hærra kaup, þar sem verðmæti peninganna er minna en áður var, og þá fær sýslufjelagið helminginn af hækkuninni úr landssjóði. Ef sýslufjelagið vill ekki hækka kaupið, þá ræður það ódýrari mann. Það lítur svo út á pappírnum, sem hagur sje að því, en óvíst er það þó, er lítið er til verksins. Mjer finst till. þessi ekki neitt þarfamál, og hún hlýtur að draga dilk á eftir sjer.