18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls við þessar umræður, en af því mjer fanst umræðurnar falla svo ljettúðlega get jeg ekki stilt mig um að taka til máls.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn reki minni til fossafrv., sem kom fram í Ed. á þinginu í fyrra. Jeg býst við, að flestir álíti, að það hefði verið stóróheppilegt, ef það hefði náð fram að ganga eins og það var. Það hafði í för með sjer fjárhagslegan voða fyrir þetta land. Mönnum mun vera ljóst, að þetta er eitt með allra stærstu málunum, sem nú eru á dagskrá þjóðarinnar. Reynsla annara þjóða sýnir okkur það. Skökku sporin, sem þær hafa stigið, hafa orðið þeim dýrari en nokkur nefnd gæti nokkurn tíma orðið. Kostnaðurinn við fossanefnd þessarar þjóðar getur aldrei orðið nema eins og dropi í hafinu við hliðina á þeim fjárhæðum, sem um er að ræða.

Það kemur mjer einkennilega fyrir sjónir, að sumir þeir, sem talað hafa síðast, halda því fram, að það hafi komið þeim á óvart, að þingmenn voru settir í nefndina. En það var einmitt gert ráð fyrir því hjer á þingi í fyrra, og ætti þessu máli ekki að vera ver borgið í höndum þeirra fulltrúa þjóðarinnar, sem þingflokkarnir bera traust til?

Það er furðulegt, að menn skuli leggja nefndinni ámæli fyrir það, að hún hefir ekki enn skilað áliti sínu. Hefir nokkurn tíma verið gert ráð fyrir, að nefndin væri búin að ljúka störfum fyrir þetta þing? En ef ekki hefir verið búist við því, og ef ekki hefir verið hægt að búast við því, því er þá verið að gera árás á nefndina ? Af hverju er þá yfirleitt verið að bera fram þessa fyrirspurn?

Jeg vona, að hv. deild skilji, að hjer er mikilfenglegt mál á ferð, mál, sem ekki má flaustra af. Hjer er um miljónir að ræða, svo lítil ástæða er til að telja krónurnar, þær fáu krónur, sem fara til undirbúningsrannsóknarinnar, sem þarf að vera sem ítarlegust. Hjer má naglaskapurinn úr Vigur ekki ráða.