18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Þorsteinn Jónsson:

Mjer virðist svo, sem hv. fyrirspyrjandi (G. Sv.) og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) vilji halda því fram, að Framsóknarflokkurinn hafi ráðið því, hvaða mann hæstv.atvinnumálaráðherra valdi í nefndina. Ráðherrann hefir sjálfur svarað þessu, og jeg býst við, að það hafi naumast mikil áhrif á nefnda ræðumenn, þó jeg standi upp til að bera hið sama og hæstv. atvinnumálaráðh.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) kvað sjer hafa verið fullkunnugt um það á þinginu í fyrra, að 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var ætlaður í fossanefndina af hálfu Framsóknarflokksins. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir þá verið meira kunnugt hvað gerðist í þeim flokki en mjer, því jeg fór svo af þingi í fyrrasumar, að jeg vissi ekki, hver myndi lenda í nefndinni. Hitt mun vera það sanna í þessu máli, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafa álitið þennan mann einna líklegastan til að lenda í nefndinni, vegna þess, að þeir hafa sjeð, að hann var búinn góðum hæfileikum til þess starfs.

Að því hefir verið fundið, að þingmenn voru valdir í nefndina. En um það munu flokkarnir hafa verið sammál í fyrra. Stjórnin hefir og sjeð, að þetta mál myndi seinna koma undir úrskurð þingsins, og væri því vel farið, að hver flokkur ætti eitt sæti í nefndinni, svo hann gæti betur fylgst með gangi málsins. Þetta mál hlýtur fyr eða síðar að koma til kasta þingsins. Þingmenn verða að kynna sjer það vel, því að þeir gera út um örlög þess að síðustu. Og það ætti að liggja í augum uppi, að þingmenn eru hæfir til að sitja í þessari nefnd, ef þeir á annað borð eiga að teljast hæfir til að kveða upp úrslitaúrskurð í málinu.