18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Fyrirspyrjandi (Gísli Sveinsson):

Jeg vil gera örstutta athugasemd við ummæli, hæstv. forsætisráðherra. Hann komst svo að orði — jeg var undrandi yfir því, bjóst ekki við því úr þeim stóli —, að þetta væri fánýtt hjal. Jeg bjóst við því, að hann hefði áhuga fyrir þessu máli og vildi hrinda því áfram, og jeg hjelt, þó menn hafi lagt misjafna dóma á skoðun hans um þetta, að hann vildi taka á málinu með alvöru og festu og láta sem fyrst verða af framkvæmdum. Og samkvæmt þessari skoðun hefði hann síst átt að vera að tala um fánýtt hjal, því að ef umr. þessar mega, sem jeg vona, verða til þess að ýta á eftir áliti nefndarinnar, þá hefir gott af þeim leitt.

Hæstv. forsætisráðherra segir og, að málið verði að engu ef því verði vísað til stjórnarinnar, og má hann vitanlega best um það dæma, en að forminu til er þetta hin eina leið, sem er fær, og með þeim rökstuðningi,sem jeg hefi fært fyrir því, á það að verða til þess, að álit nefndarinnar komi fyr. þetta alt hefði því átt að gleðja hæstv. forsætisráðh., eftir því, sem þeir, sem vildu honum best, skildu framkomu hans á síðasta þingi; — en nú virðist svo, sem hann skoði þetta að eins leik, og má hann nú eiga um það við sjálfan sig, hvað hann græðir á slíku.