24.05.1918
Neðri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

48. mál, úthlutun kola

Fyrirspyrjandi (Bjarni Jónsson):

Jeg vildi óska, að jeg hefði getað beint fyrirspurninni til háttvirts 1. þingm. Reykv., eða til bæjarstjórnarinnar. Jeg hafði ekki hagað minni ræðu svo, að jeg hafi beint henni að bæjarstjórninni, en sje af ræðu þingmannsins (J. B.), sem er í bæjarstjórn, að hún á hjer aðallega hlut að máli.

Það er eitt, sem jeg vil minnast á, sem að vísu kemur fyrirspurninni ekki við, og það er, að ekkert stendur um það í lögunum, úr hvaða skipi kolin ættu að vera. Því er með öllu óþarfur þessi lestur um það, hvort reikna beri með hærra eða lægra verði. Verð það, sem stjórnin setti, mun vera sennilegt heildarverð á öllum kolunum.

Það er aftur önnur athugasemd, sem er skökk hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að efnamennirnir eigi líka að fá hlutdeild í afslætti af vörum, því að þeir greiði það aftur í sköttum til hins opinbera. Þetta væri alveg rjett, ef um almennan afslátt á vörum væri að ræða. En þessi kolastyrkur var veittur af þinginu sem sjerstök linkind handa fátækum mönnum í kaupstöðum, sem veitti sjerstaklega erfitt að hafa ofan af fyrir sjer. Það virðist vera undarleg leið til að geta selt fátækum mönnum kol lágu verði, að vera að setja á þau mismunandi verð. Nokkru nær hefði þá verið að taka alla fúlguna, sem landssjóður ljet af hendi, og selja svo sumt fyrir fult verð, það sem fátæklingarnir þurftu ekki með, en hitt þá þeim mun lægra. Á þann hátt hefði hjálpin komið niður á fátæklingunum, eins og til var ætlast. En bæjarstjórn Reykjavíkur hefir ekki valið þessa leið, heldur hefir hún stungið gjöfum úr landssjóði í vasa efnaðra manna, sem ekki þurftu þeirra, en þiggja þær, ef til vill bara til þess að sýna, hve illa sje hægt að fara með hjálparviðleitni landssjóðs.