24.05.1918
Neðri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

48. mál, úthlutun kola

Fjármálaráðherra (S. E.):

Í tilefni af því, sem hv. þm. Mýra. (P. Þ.) tók fram, vildi jeg láta þess getið, að annarsstaðar, eins og t. d. í Danmörku, þar sem vörur eru seldar undir verði, er lækkunin látin ná til allra; svo var t. d. um smjörið. En að því er kolin hjer snertir, þá varð að selja þeim, sem betur voru staddir, nokkuð af kolunum við hærra verði, til þess að fátækara fólkið gæti fengið nokkuð af kolunum við lægra verði. Þeir, sem betur voru staddir, áttu að borga niðurfærsluna hjá þeim fátækari.

Jeg get nefnt nokkur dæmi upp á verðlag og flokkun í nokkrum hjeruðum:

Í Húnavatnssýslu voru kolin seld á 90 kr., 120 kr. og 200 kr. Á Fáskrúðsfirði 100 kr., 150 kr. og 170 kr. í Helgu 110 kr., 125 kr. og 140 kr. A Seyðisfirði 100 kr., 130 kr. og 160 kr.

Út af ræðu hv. þm. Stranda. (M. P.) get jeg ekki sagt annað en jeg er búinn. Það mun vera ábyggilegt, að landsverslunin ákvað kolaverðið 300 kr. pr. smálest. Hvort það hefði mátt vera lægra, það er vitanlega nokkuð álitamál. En það sjá allir, að ekki gæti verið nein meining í því að miða verðið við lægsta farminn. Jeg skil, hvað háttvirtur þingm. Stranda. (M. P.) er að fara með þessu. Honum finst, að þarna sje gróði, — hann nefndi 200.000 kr. — sem vafasamt sje, hvort landsverslunin geti tileinkað sjer, og viljinn er auðvitað hinn besti til að gera sem minst úr gróða landsverslunarinnar. Jeg veit ekki, hve mikið landsverslunin kann að hafa grætt á þessari kolasölu. En það liggur í augum uppi, að þegar landsverslunin á að hafa hag, þá verður hún að græða á einhverju. Og eitthvað hefir hún sennilega grætt á kolaversluninni.