27.05.1918
Neðri deild: 32. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í C-deild Alþingistíðinda. (2299)

53. mál, hækkun á verði á sykri

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Það voru nokkur ummæli hæstv. fjármálaráðherra, sem jeg vildi gera lítils háttar athugasemdir við. Hann var hissa á því, að jeg skyldi vera að spyrja, þar sem nefnd er skipuð í þetta mál, en jeg er búinn að gera grein fyrir því í ræðu minni, hvers vegna jeg flutti fyrirspurnina. Jeg skal að eins geta þess, að jeg hefi rannsakað þetta mál svo, sem mjer var hægt, og fengið þær skýrslur, sem stjórn landsverslunarinnar hefir getað gefið. En þó að jeg hafi fengið þessar skýrslur, þá hefi jeg, alveg eins og jeg tók fram áður, ekki fengið þar með fullnægjandi rök fyrir þessari hækkun, og ekki fengið þau enn þá, þrátt fyrir svonefnd svör stjórnarinnar. Annars held jeg, að það hefði ekki verið neitt tjón, þótt hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki haldið þessa ræðu sína, því að hún gaf ekki minstu skýringu í þessu máli. Hæstv. atvinnumálaráðh. hjelt sjer við efnið og gaf þá skýringu, sem hann gat gefið og rjett var frá hans sjónarmiði.

Jeg ætla ekki að fara mikið út í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, því að hún kom ekkert málinu við; það eitt, sem kom málinu við, var það, að hann las upp ræðukafla frá Alþýðuflokksfundinum 9. nóv. í haust. Þá talaði hæstv. fjármálaráðherra mikið um tvo aðilja, sem honum eru þyrnar í augum, blaðið „Ísafold“ og kaupmennina. Væri jeg ritstjóri Ísafoldar, myndi jeg þakka hæstv. fjármálaráðh. fyrir þann heiður, sem hann gerði blaðinu með að taka upp ummæli þess á opinberum þingfundi. En menn reiða oft hátt til höggs, þegar þeir eru að berjast, og hafi blaðið reitt of hátt, þá hefir hæstv. fjármálaráðh. engu síður gert það núna. Hins vegar hefi jeg skoðað það svo, sem sjálfsagt væri að blanda sem minst í umr. mönnum, sem ekki eru viðstaddir, og þegar ein stjett manna er lýtt, eins og hjer er með kaupmennina, og enn fremur þessi blöð, sem honum þykir ekki meira en svo vænt um, finst mjer að eigi að fara mjög varlega í það; það er dálítið annað mál, þó við kljáumst hjer í deildinni, sem megum tala hjer og ekki er hægt að draga til ábyrgðar í þinghelginni. (Fjármálaráðh.: Jeg hefi ekkert sagt, sem jeg er ekki fús til að endurtaka utan þinghelginnar). Jeg er ekki að segja, að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt nokkuð, sem varðaði við lög.

Hæstv. fjármálaráðh. var eitthvað sár út af því, að blaðið sagði, að hann hefði ekki minst á málið á Alþýðuflokksfundinum, og mjer skildist, að hann vildi telja það rangt. (Fjármálaráðh. Það, sem jeg meinti, var það, að þar, sem „Ísafold“ sagði, að jeg hefði varla minst á málið, þá væri það ekki rjett, að jeg hefði gefið ranga skýrslu). En það er nú samt mikið til í þessu, og manni dettur líka í hug, þegar maður les ræðu hæstv. fjármálaráðherra í „Tímanum“, hvers vegna hann hafi haldið hana, því að hún kemur málinu ekkert við, nema þá lítils háttar atvinnubótum. (Fjármálaráðh.: Vill hv. þm. (E. A.) lesa hana?). Nei, það verður hæstv. fjármálaráðh. að fyrgefa, þó að jeg nenni ekki að gera það aftur, enda myndi hæstv. forseti ekki leyfa það. Ræðan er skáldleg, hún byrjar á sögunni um Galdra-Loft, hún væri ef til vill ágæt skálaræða í veislu, en sem ræða um sykurverð er hún algerlega einskis virði; mig minnir, að þar sje sagt, að verðið sje bundið sömu reglum og vanalega, og að ef ábyggileg vissa fáist um, að danski sykurinn komi, muni verðið lækka, og sama er að segja um þessa ræðu, sem hæstv. fjármálaráðh. hjelt nú. Hún var meira í þá átt að vera „lyrisk“ en „finansiel“ eða „politisk“.

Hæstv. fjármálaráðherra furðaði sig mjög á því, að það hefði verið svo mikill urgur í mönnum út af verðhækkuninni, þar sem hún hefði strax verið numin úr gildi. Það var rjett, eins og jeg tók fram áður, að landsverslunin endurgreiddi mismuninn, en mig furðar samt á því, að svo veraldarvanur maður, eins og hæstv. fjármálaráð. ætti að vera, skuli furða sig á, að menn verði reiðir órökstuddri hækkun á svo mikilsverðri nauðsynjavöru; en lækkunin var ekki komin til þegar fundurinn var haldinn, því að hann var haldinn á tímabilinu milli verðhækkunarinnar og verðlækkunarinnar, svo að það var ekkert undarlegt. Það getur líka verið mjög rjett, sem hæstv. fjármálaráðh. segir um kaupmannagróðann, en það er eins og fleira í ræðu hans, að það upplýsir ekkert þetta mál, sem fyrir liggur. Líka skal jeg fullkomlega ganga inn á það með hæstv. fjármálaráðh., að það hafi ekki verið tilgangur stjórnarinnar að leggja skatt á landsmenn; hækkunin hefði ekki farið fram í því skyni. Jeg veit ekki, hvort jeg byggi það á sömu rökum og hæstv. fjármálaráðh. gerir í sínu hugskoti, en jeg veit, að til þess að leggja skatt á þjóðina þarf það að vera gert í þeim tilgangi og með því viti, að álagningin muni hafa með sjer peninga í skaut landssjóðs, en hjer er ekki því til að dreifa, því að jeg verð að trúa því, að stjórnin hafi það álit, að verðhækkunin væri til þess að vinna upp eitthvert tap, og í rauninni verið að mestu í blindni gerð. Sumir hafa ekki álitið þetta atferli stjórnarinnar á rjettum grundvelli bygt, halda, að hún hafi gert þetta í einhverju ógáti, en til þess að leggja skatt á, þarf maður að vinna vísvitandi. Hæstv. fjármálaráðherra hafði þau ummæli, að hann ljeti sjer í ljettu rúmi liggja, hvort verðhækkunin væri metin of há hjer í deildinni. (Fjármálaráðherra: Já, af því að það er dautt mál.) Já, það er auðvitað dautt mál, eins og fjöldi annara verka okkar í lífinu, sem ekki er hægt að gera um aftur, t. d. eins og að drepa mann. (Fjármálaráðherra: Það var enginn að drepa mann með þessu.) Jeg veit, að hæstv. fjármálaráðherra hefir tekið lögfræðipróf, og getur því vel skilið hugsanaganginn hjá mjer, ef hann vill. út af því, sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um það, að þetta væri dautt mál, verð jeg að svara þessu til, en hitt er annað mál, að þingið eins og það nú er skipað, fer varla að gera nokkuð út úr þessu máli. Hann hefir þar á rjettu að standa, að þingið telur þetta víst dautt mál, eins og nú er komið, og eins þótt stjórnin gæti ekki vitað, hvað hún þyrfti að láta verðhækkunina standa lengi.

Þá var það eitt atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, sem hann kom inn á, og virtist eins og fleira í ræðu hans vera sagt til þess að beina athygli manna frá höfuðatriði málsins. Það var breytingin á stjórn landsversluninnar. Það var góð breyting, enda veit jeg ekki betur en að bjargráðanefnd þessarar hv. deildar á síðasta þingi kæmi fram með þá till. að losa landsstjórnina við forstöðu landsverslunarinnar, en það er algerlega rangt frá skýrt, að það hafi verið gert fyr en um nýár. (Fjármálaráðherra: Það var gert fyr.) „Tíminn“ segir þó, að forstjórinn geri till. til landsstjórnarinnar um verðið, og jeg geri ekki ráð fyrir, að hann segi ósatt, og hefði verið búið að taka verslunina út úr stjórnarráðinu, hefði þetta aldrei komið til stjórnarinnar, því að forstjórinn hefði þá gert það upp á eindæmi sitt, og það er einmitt þetta, að stjórnarblaðið er að benda á, hvað gera þurfi og gera eigi, en hvað ekki sje búið að gera ætti hæstv. fjármálaráherra vissulega að vera heima í, og hve nær skiftingin hafi orðið, því að það vita allir, að það, sem gert var um nýár, það hefir ekki verið gert fyr í þessu efni. En það er einmitt það, sem jeg álít að stjórnin hafi gert skakt í, að fara ekki að ráðum bjargráðanefndar í fyrra; hæstv. fjármálaráðherra var þá sjálfur í bjargráðanefndinni, og veit jeg ekki betur en að hann væri á sama máli um það, en þrátt fyrir það varð það ekki fyr en mörgum mánuðum seinna en átti að vera. Hæstv. fjármálaráðherra var að ámæla kaupmönnum og nokkrum öðrum góðvinum sínum fyrir þennan mikla úlfaþyt, sem þeir hefði vakið, þegar farið var að kreppa að mönnum og atvinnuskortur var í nánd. Það er ekki hægt að neita því ámæli, en það kemur úr dálítið skakkri átt, því að það er einmitt á þessum sama tíma sem þessi hækkun á nauðsynjavöru gengur í garð. Það getur vel verið, að kaupmenn kreppi að mönnum og sjúgi þá út. (Fjármálaráðherra: Jeg notaði ekki það orð, að sjúga). það getur vel verið, en meiningin var hin sama, og það er andinn, en ekki orðin, sem máli skifta. — En þá hefði líka hin góðsama stjórn átt að hafa það í huga, hve illa var tilfallið að hækka vöruverðið. (B. J.: Hún lækkaði verðið aftur.) Hún vissi ekkert um, hvort hún gæti gert það, þegar hún hækkaði verðið.

Jeg sá það, að hæstv. atvinnumálaráðherra kvaddi sjer hljóðs; það getur vel verið, að hann ætli eitthvað að fara út í málið og komi með ný atriði. Jeg veit ekki, hvort hæstv. forseti leyfir mjer þá að gera athugasemd á eftir.