21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Björn Kristjánsson:

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir nú tekið fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa.

Það er mjög eðlilegt, að stjórnin vilji afla landssjóði tekna, því að þess er auðvitað full þörf. En það er vitaskuld ómögulegt að afla honum eins mikilla tekna og hann þarfnast, og eitthvað af þeim halla, sem landið biður nú, verður óhjákvæmilega að bíða betri tíma.

Jeg held nú, að síðasta þing hafi gengið eins langt og hægt var með tekjuskattinn. Þótti mörgum það ærið langt gengið að koma skattinum upp í 15%. Það er eins og háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að það er ekki fyrir öllu sjeð með því að draga sem mest í landssjóðinn; það verður líka að sjá um, að sveitar- og bæjarfjelög njóti af gróða efnamannanna. Og það er t. d. vitanlegt, að í þessu bæjarfjelagi, Reykjavík, eru það fáeinir efnamenn, sem bera mestan hluta af útsvörum bæjarins. Liggur því í augum uppi, að ekki er ráðlegt að þjappa svo að þeim, að þeir verði ónýtir að gjalda til hreppsins. En það er vitaskuld, að því meir sem þeir eru veiktir með þungum sköttum til landssjóðs, því minna getur hreppurinn á þá lagt. Er þetta því varhugavert frá þessu sjónarmiði.

En svo kemur annað atriði til greina ‚í þessu sambandi, og það er það, að takmörk geta verið fyrir því, hvað menn láta bjóða sjer, og ef nokkuð á að leyfa að „presea“ efnamennina til opinberra þarfa, þá sætta þeir sig betur við að gjalda tiltölulega há gjöld til sveitarsjóðs en að greiða óhæfilega hátt gjald í landssjóð.

Það hefir nú verið gert töluvert til þess upp á síðkastið að hækka tekjuskattinn, og jeg sje varla hægt að fara lengra. Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að þeim væri ekki vorkunn að gjalda háa skatta, sem hafa 30 þús. kr. og þar yfir í tekjur. Það getur verið álitamál, því að sá, sem hefir 30 þús. kr. í tekjur af atvinnu, á einatt mikið í hættu, getur jafnvel tapað 30 þús. kr., í stað þess að græða þá upphæð. 30 þús. kr. geta verið smáræði í samanburði við reksturinn, sem hann hefir, og þá ábyrgð, er rekstrinum fylgir. Það er ekki víst, að þetta sjeu tekjur, sem altaf loða við. Það er alt annað en tekjur af fasteignum eða verðbrjefum.

Menn líta mjög misjafnlega á þetta í ýmsum löndum. Þau lönd, sem mestar þurfa tekjur og mestan þurfa því að leggja á gróðaskatt, eru stríðslöndin. Jeg vil benda mönnum á að lesa „Finanstidende“ frá 20. mars 1918. Þar í eru ummæli prússneska fjármálaráðherrans, Hergf. Þar í Prússlandi, er verið að fara fram á mjög háan tekjuskatt, en landsmenn eru uppnæmir og vilja ekki ganga inn á þessa aðferð. Út af því segir þessi prússneski fjármálaráðherra:

„Jeg get lýst yfir því, að jeg álít tekjuskattsálögur 20—25% óþolandi (unerträglich). Til þess að róa landsmenn verð jeg þess vegna að lýsa yfir því, að jeg álít slíkar prósentur fullkomna fjarstæðu“.

Þetta er nú sagt í landi, þar sem skuldirnar safnast, miljarð á miljarð ofan. Og þetta sjer hæstv. fjármálaráðh. þar, en hann þorir ekki að leggja skatta á fólkið og ekki þá ríku heldur. Jeg bendi á þetta til þess að sýna, að takmörk eru fyrir því, hve langt má ganga í slíkum skattaálögum. Til þess geta verið ýmsar ástæður, t. d. þær, að sveitarþingið (Kommune) þurfi að leggja á menn þunga skatta, eða svo mikil óánægja verði í landinu, að menn fari af landi burt, ef svo er þröngvað kosti þeirra. Þetta vildi jeg benda á, af því að jeg er á þeirri skoðun, að hjer sje of langt farið. Og það var vitanlega skoðun manna hjer í deildinni í fyrra, að þá væri farið eins langt og óhætt væri.