17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

59. mál, sala á salti til útlendra fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Pjetur Ottesen):

Mjer finst jeg ekki geta látið hjá líða nú í þinglokin að beina örfáum orðum til hæstv. stjórnar í tilefni af því, að við 2 deildarmenn fluttum á öndverðu þingi fyrirspurn til stjórnarinnar um alvarlegt atriði. Fyrirspurnin var leyfð af hv. deild með öllum greiddum atkvæðum. En hún hefir ekki fundið náð fyrir augum hæstv. stjórnar, og hefir hæstv. stjórn ekki svarað henni einu orði, hvorki hátt nje í hljóði. Í stuttu máli hefir hún stungið fyrirspurninni algerlega undir stól.

Við fyrirspyrjendur verðum að telja þessa aðferð stjórnarinnar gagnvart okkur í hæsta máta móðgandi. Og við lítum enn fremur svo á, að hún fari algerlega í bág við 31. gr. þingskapanna, þar sem ótvírætt er gert ráð fyrir, að slíkum fyrirspurnum sje svarað, og enn fremur við 40. gr. stjórnarskrárinnar.