30.05.1918
Neðri deild: 35. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

65. mál, Alþingiskvaðning

Fyrirspyrjandi (Sigurður Stefánsson):

Jeg skal strax taka það fram til að byggja fyrir allan misskilning, að þessi fyrirspurn er ekki komin fram af því, að landsstjórnin kvaddi þingið til aukafundar, heldur, eins og líka fyrirspurnin ber með sjer, af því, að jeg vil fá að vita, hvers vegna aukaþingið var kallað saman 10. apríl.

Eins og kunnugt er, mælir 8. grein stjórnarskrárinnar svo fyrir, að konungur geti kvatt Alþingi saman til aukafunda, og ráði hann þá, hve lengi það á setu. þessi fyrirmæli eru vitanlega bygð á því, að oft getur verið full nauðsyn fyrir stjórnina að kveðja þingið saman milli reglulegra Alþinga. Þau mál geta til hennar kasta komið, er ekki má fresta framkvæmdum á til næsta reglulegs Alþingis. Þess vegna er þessi ráðstöfun sjálfsögð í þeim málum, er ekki þola bið. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt ákvæði um, að stjórnin skuli njóta aðstoðar þingsins, þegar hún getur ekki gert út um málin á eigið eindæmi.

En hitt er annað mál, að það getur stundum orkað tvímælis, hvernig stjórnin notar þessa heimild. Hingað til hefir það þó ekki átt sjer stað í þingsögu vorri, því að stjórnir vorar hafa gætt þess, að nota ekki þessa heimild nema brýna nauðsyn bæri til, og sem minst á þeim tímum árs, sem það er mestum örðugleikum bundið fyrir þingmenn og kostnaðarsamast fyrir landssjóð. Þessi atriði verður að telja hverri stjórn skylt að athuga vel, í hvert skifti, sem hún þykist neydd til þess að kalla saman aukaþing. Hún verður bæði að athuga, hvort til þess sje full nauðsyn, og hitt, á hvaða tímum árs það sje þingmönnum hentugast og landssjóði kostnaðarminst. Þetta síðasta atriði er ekkert lítilsvert, vegna þess, að öllum má það vera kunnugt, hve ferðalög hjer á landi eru dýr og bundin mörgum örðugleikum og hættum fyrir heilsu og jafnvel líf manna, að vetrarlagi.

En hvað sem öllu þessu líður, verður að gera þá sjálfsögðu kröfu til hverrar stjórnar, að hún kveðji ekki til aukaþings fyr en alt er af hennar hálfu svo undirbúið, sem nauðsynlegt er til þess, að þingmenn geti þegar gengið að þeirri vinnu, sem þeim er ætluð, með fullum krafti. Ef svo er ekki, er hjer um vanrækslu að ræða, sem veldur eða getur valdið því, að þingið sitji, lengur eða skemur, aðgerðalaust um þau efni, er sjerstaklega voru orsök þess, að þingið var kallað saman. Það er með öðrum orðum skýlaus skylda hverrar stjórnar að haga aukaþingum þannig, að þeim fylgi sem minstur kostnaður fyrir þjóðina, án þess þó að störf þeirra sjeu í minsta máta vanrækt, og þetta alt er stjórninni í lófa lagið.

En nú er það svo, á þeim háskatímum, er vjer lifum á, að altaf má búast við óvæntum atvikum, er geri það knýjandi nauðsyn að kveðja til aukaþings. þess vegna gæti það líka vel verið nauðsynlegt, eins og slegið hefir verið fram, að þingið sæti á rökstólum árið í kring. Jeg verð að segja, að það getur verið nokkurt vit í þessu, því að þótt þing sje kallað saman einhvern tíma á árinu, þá getur það vel viljað til, að þegar þingið er nýlega skilið, þá komi einmitt það óvænta fyrir og vandamálið beri að höndum.

En nú er það svo, að hver sú stjórn, sem fer með framkvæmdarvald landsins, á í flestum tilfellum að geta ráðið upp á sitt eindæmi þeim umboðslegu málum til lykta, er fyrir koma, án þess að kalla þingið saman, ef stjórnin á annað borð er fær um að fara með umboðsvaldið og hefir traust þingsins.

En það er auðvitað öðru máli að gegna um veika og vanmáttuga stjórn, sem er huglaus, og ekkert þorir að gera af ótta fyrir því, að þingið muni ekki segja já og amen. En þær stjórnir, sem svo er varið, eru í raun og veru ekki færar um að fara með umboðsvaldið. þær eiga ekki að vera til, því að þær vantar þann hug og dug, er vænta má af hverri úrræðagóðri og einarðri stjórn.

Skoði maður nú þingkvaðninguna 10. apríl í sambandi við þessar almennu athugasemdir, þá verður þeirri hugsun ekki varist, að það orki mjög tvímælis, hvort þessi ráðstöfun stjórnarinnar hafi verið hyggileg eða jafnvel forsvaranleg. Hún gæti því að eins verið hyggileg og forsvaranleg, að eitthvað það væri fyrir hendi, að velferð landsins væri í húfi, ef ekki væri þegar úr því greitt, hve mikla erfiðleika og kostnað sem það hefði í för með sjer. Og það var því í raun og veru mjög eðlilegt um oss þingmenn utan af landi, að oss kæmi í hug, þá er vjer fengum þessa kvaðningu í mestu harðindum vetrarins, að eitthvað lægi sjerstaklega á, velferð landsins væri hreint og beint í veði. En það held jeg, að engum okkar, sem ekki vorum neitt sjerstaklega „innvígðir“ í áform stjórnarinnar, hafi getað til hugar komið, að þá er vjer værum komnir til þings með miklum erfiðismunum og jafnvel lífshættu, þá væru málin, sem þingið var kvatt saman til að fjalla um, eins lalega undirbúin af hendi stjórnarinnar eins og raun varð á. Vjer gátum ekki hugsað annað en að alt væri svo vel fyrir búið, að þingið gæti þegar gengið að verki með stjórninni. Að minsta kosti get jeg sagt það fyrir mig, og því var það, að jeg þóttist ekki geta varið það fyrir kjósendum mínum, nje minni eigin samvisku, að sitja heima, enda þótt þessi ferð reyndist stórhættuleg bæði heilsu og lífi manna, og munu þeir, sem voru förunautar mínir, best geta borið mjer vitni um, hve geðsleg sú för var.

Það er ekki tilgangurinn með aukaþingum, að þau skuli kveðja saman til almennra löggjafarstarfa. Þeim störfum er vanalega svo varið, að þau geta landinu að skaðlitlu beðið næsta reglulegs Alþingis. Jeg segi að skaðlitlu, svo að ekki sje ástæða til þess að kasta út tugum þúsunda til aukaþinga þeirra vegna. Aukaþing á ekki að kalla saman (til venjulegra löggjafarstarfa, heldur til þess að ráða til lykta málum, sem ekki mega dragast, annaðhvort af lagalegum ástæðum, eins og t. d. stjórnarskrárbreytingar, eða öðrum knýjandi ástæðum, nema til stórófarnaðar fyrir landið. Þótt allir geti nú skilið, að nú á tímum sje meiri nauðsyn til aukaþingshalds en á „normal“tímum, þá er þó hins að gæta, að einmitt sökum þess, hve þessir tímar eru tvísýnir og ótryggilegir, þá hefir þingi einmitt veitt stjórninni miklu fremur en ella óbundnar hendur til þess, að hún geti upp á sitt eindæmi ráðið fram úr þeim vandamálum, sem nú má einlægt búast við að beri óvorum að. Auk þess hefir stjórnin einlægt þau ákvæði, sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að hún getur gefið út bráðabirgðalög milli þinga. Það er svo sem auðvitað, að á „normal“tímum fer stjórnin varlega í þessu, en á þessum tímum getur hún oft verið neydd til að grípa til þess úrræðis. Og jeg skil ekki, að nokkurt þing á Íslandi geti verið svo ósanngjarnt, að finna stjórninni það til foráttu, þótt hún geri þetta, í stað þess að setja af stað þetta bákn, sem þingið er, með öllum sínum kostnaði og umsvifum.

Jeg álít nú, eins og fjárhag vorum er komið, að stjórninni beri að taka fult tillit til fjárhagsástandsins og baka ekki þjóðinni kostnað, nema það sje í alveg óhjákvæmilegu bjargráðaskyni fyrir landið. Líti maður nú á, hvernig sakir stóðu, er vjer komum til þessa þings, hygg jeg, að mörgum hafi flogið í hug sú hugsun, að fullsnemma væri hingað komið. Að vísu var það svo, að laust fyrir miðjan vetur fóru að berast út hviksögur um, að von væri á einhverjum samningum við Dani, sem ættu að fara fram í Reykjavík um það mál, sem nú má telja mál málanna hjá oss, sem sje fánamálið. En þetta voru þó að eins hviksögur, sem ekki var vissa fyrir hve miklar reiður mátti á henda.

Að vísu heyrðum við, að stjórnin hefði haft fundi með þeim þm., sem hún gat náð til, og skal jeg ekki lasta það, en þess hefðu þó þm. úti um land mátt vænta, að fá einhverja vitneskju frá stjórninni um það, hverja nauðsyn bæri til að kalla þá saman, en það hafa þeir ekki fengið. En eins og jeg hefi áður tekið fram, þóttumst við vissir um, að eitthvað mikið væri í húfi.

Það skal enn fremur tekið fram, að jeg álít, að þótt samningaumleitanir hefðu verið komnar lengra en nú er á daginn komið, og jafnvel þótt málið hefði verið svo vel undirbúið, að þingið hefði strax getað tekið það til meðferðar þegar suður kom, þá hefði ekki verið mikið í hættunni, þótt þinghaldinu hefði verið frestað fram á vorið, er þm. gátu lífshættulaust eða lífshættulítið ferðast hingað. Við sem sagt bjuggumst við, að eitthvað væri á ferðinni, sem enga bið þyldi og stjórnin alveg ómögulega gæti ráðið fram úr upp á sitt eindæmi, hversu vitur, einbeitt og úrræðagóð sem hún væri. En í mínum augum er ekkert það enn þá komið fram, sem rjettlætt geti þá ráðstöfun stjórnarinnar, að kalla þingið saman á þessum tíma, og þess vegna hefi jeg borið fram þessa fyrirspurn; bjóst jeg við að fá svarið strax er jeg kom á þing, en það er enn þá ókomið.