16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

34. mál, úthlutun kornvöru og sykurs

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg gat þess um daginn, þegar fyrirspurn þessi var fyrst til umræðu, að henni væri fljótsvarað, og er það rjett, en jeg varaði mig ekki á því, að hv. fyrirspyrjandi (H. St.) mundi vilja draga inn undir hana öll verslunarmál vor, smá og stór, og er því tæplega við búinn að svara öllu því, er um þau kann að verða spurt, þó jeg hins vegar geri það að nokkru leyti. Jeg mun því aðallega beina orðum mínum að fyrirspurninni.

Hv. fyrirspyrjandi (H. St.) gat ekki fundið nema eina ástæðu, sparnaðarástæðuna, til þess, að landsstjórnin gaf út þessa reglugerð; að minsta kosti mintist hann ekki á aðra ástæðu.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (H. St.) á sæti í sveitarstjórn, en um leið og reglugerð þessi var birt og send sveitarstjórnum landsins ritaði landsstjórnin brjef til allra sveitarstjórna landsins, þar sem hún skýrði frá, hverjar ástæður lágu til reglugerðarinnar eða setningar hennar. Það hefði því átt að mega gera ráð fyrir, að hv. þm. (H. St.) væri þetta kunnugt, en úr því að svo er eigi, vil jeg skýra frá, hvaða ástæður eru færðar fram í fyrgreindu brjefi landsstjórnarinnar.

Fyrsta — og helsta — ástæðan var sú, að svo leit út, sem aðflutningar til landsins mundu framvegis vera af skornum skamti, og því nauðsyn á að tryggja það, að vörurnar dreifðust sem jafnast til neytendanna. þá horfði málið svo við, að það voru eiginlega engin líkindi fyrir, að við fengjum nokkrar vörur frá Danmörku, nema nokkuð af rúgmjöli,og það var ekki mjög mikið, og matarforði sá, er til var í landinu á nýári, var svo lítill, að sjáanlegt var, að hann mundi ganga til þurðar á stuttum tíma.

Í öðru lagi, að þjóðinni væri um megn að hafa stærri skipakost en hún nú hefði, en að skip þau fullnægja ekki til fulls þörfum vorum.

Þriðja ástæðan var, að þegar unnið var úr skýrslum þeim, er safnað hafði verið um vörubirgðir landsmanna, þá kom það í ljós, að vörubirgðirnar voru mjög mismunandi í hinum ýmsu hjeruðum landsins. En þennan mismun var nokkurn veginn auðvelt að lagfæra, þegar seðlafyrirkomulagið var komið á.

Enn fremur er það nú svo, að flestar þjóðir, sem við skiftum við, hafa orðið að koma á fót hjá sjer allskonar seðlafyrirkomulagi, og þar sem svo er, þá má vænta þess, að þær væru ófúsar til þess að láta oss fá vörur eftir þörfum vorum og hvers eins vild og getu, ef það væri eigi háð eftirliti, hvernig þeim væri úthlutað hjer. Bandaríkjamönnum hefir verið send skýrsla um það, hversu mikið við eyðum árlega af helstu nauðsynjavörum vorum. Þetta var gert eftir ósk þeirra. Það er — og var — engin vissa fyrir, að við fengjum jafnmikinn forða til ársins og við höfum áður þurft, og þótt svo hefði orðið, þá gátu sumir fengið ofmikið og aðrir oflítið. Við höfum fengið vörur frá Danmörku, þar sem flestar vörur eru látnar eftir seðlum, og var það vitanlegt, að Danir vildu, að eins yrði farið að með vörur frá þeim.

Hv. þm. (H. St.) var að tala um það, að lítill sparnaður yrði eftir reglugerðinni, en þetta er ekki rjett. Eftir skýrslu hagstofunnar hafa eyðst 150 kg. á mann af kornvöru, en eftir reglugerðinni má aðeins úthluta 130 kg., svo það er eitthvað bogið við tölur þær, er hv. þm. Snæf. (H. St.) flutti, en það er hægðarleikur að fá upplýsingar frá hagstofunni um hið rjetta um tölur þessar.

Þegar feitmetisskortur ríkir í landi voru, þá megum vjer síst án sykurs vera. Því er það, að bæjarbúar og sjávarþorpsbúar mega síður neita sjer nú um sykur en áður fyr, og þeim, kaupstaðarbúum, fer alt af fjölgandi. Því má eigi bera sykurþörf vora nú saman við sykurneyslu vora árið 1910, eins og hv. þm. (H. St.) gerði.

Mjer skildist hv. þm. (H. St.) halda því fram, að hjer ætti einvörðungu að ,vera frjáls samkepni í versluninni, og ekkert eftirlit ætti að vera með því, hvernig vörunni væri hlutað út meðal almennings. Stjórnin lítur öðruvísi á þetta. Hún lítur svo á, að þótt frjáls samkepni eigi að vera grundvöllur góðrar verslunar á venjulegum tímum, þá geti út af því brugðið, að hún sje hagfeldust, og nú hefir út af því brugðið. Nú er erfitt að útvega vörur, og frjálsa verslunin ekki fær um það, svo að hún fullnægi kröfum þjóðarinnar.

Hann sagði, að óánægjan með landsverslunina hefði farið fremur vaxandi, en jeg neita, að svo sje. Jeg hygg, að margir hv. þm. geti sagt hið gagnstæða orðum hv. þin. (H. St.), og jeg veit, að margir líta svo á, að landsverslunin hafi verið og sje alveg bráðnauðsynleg fyrir þjóðina.

Hv. þm. (H. St.) sagði, að það ætti að vera náin samvinna milli stjórnarinnar og kaupmanna, og stjórnin ætti að hafa eftirlit með kaupmönnum. Eftirlit þetta hefir verið haft; það hefir verið fólgið í því, að sýslumenn hafa verið látnir safna skýrslum um vörubirgðir kaupm. Að hverju leyti hefir komið fram skortur á samvinnu milli landsverslunarinnar og kaupmanna er mjer hulið, og neita því gersamlega, að kaupmönnum hafi verið meinað að birgja landið upp að vörum. Það er siður en svo, að kaupmönnum eða samvinnufjelögum hafi verið meinað um rúm fyrir vörur þeirra í skipunum, að þau hafa þvert á móti setið að ódýrara farmgjaldi með skipum Eimskipafjelagsins, og landsstjórnin hefir ætíð flutt fyrir þá vörur þegar rúm hefir leyft, og það oft vörur, sem eigi er beinlínis hægt að telja nauðsynjavöru.

Jeg neita því, að ósönnuðu máli, að landsstjórnin, landsverslunin eða forstjóri hennar hafi sýnt kaupmönnum nokkur þægindi, og jeg legg áherslu á þetta atriði, því það hefir hvað eftir annað verið borið fram, bæði á mannfundum, blöðum og nú loks hjer í hv. deild. En aldrei hafa verið færðar neinar sönnur á þessar fullyrðingar, sem eigi er heldur við að búast.

Hv. þm. (H. St.) sagði, að landsverslunin væri orðin svoddan heljarbákn — er það bákn, sem leiðir til heljar? spyr jeg — eða væri orðin alt of stór. Þetta hlýtur að vera misskilningur hjá hv. þm. (H. St.), því eins og jeg áður hefi sýnt fram á, þá er forði sá, er hún hefir, ekki svo stór, að hann geti dugað þjóðinni nema skamman tíma, og landsverslunin hafi aldrei amast við því, að kaupmenn flyttu vörur til landsins, eftir því sem þeir geta. Og það er með öllu rangt, að stjórnin hafi um þetta fremur hlynt að samvinnufjelögunum en kaupmönnum; aðstaða hennar til þeirra er algerlega hin sama.

Hv. þm. (H. St.) var að tala um einhvern vilja þingsins; hvaða vilja og hvar er sá vilji bókaður? Jeg geri ráð fyrir, að honum veiti erfitt að finna þessum orðum sínum stað.

Hv. þm. (H. St.) sagði, að kaupmenn græddu í skjóli landsverslunarinnar, en jeg býst við, að það yrði langt mál að sanna, að svo væri, eða hvernig á því stæði, og honum mundi veitast það allörðugt. En jeg vil benda honum á, að landsverslunin hefir eigi nema örfáar vörutegundir, og það vörutegundir, sem einna minst hefir verið lagt á, alment tekið, hjá verslunum, en kaupmenn hafa allar aðrar vörur og geta lagt á þær svo sem þeim lýst, og jeg geri ráð fyrir, að hagnaður þeirra þessi ár sje aðallega fyrir verslun með þær vörur.

Hv. þm. (H. St.) tók það loks fram, að hann bæri fult og óskorað traust til þeirra þriggja manna, er stjórnað hafa landsversluninni síðan á nýári. Þetta gladdi mig, og ekki hvað síst af því, að seðlafyrirkomulag það, er hv. þm. (H. St.) er að spyrja um og fárast yfir, er tekið upp með fullu ráði þeirra og samþykki, og svo er og um margt annað, er hv. þm. (H. St.) talaði um. Einn þeirra, hv. þm. Ak. (M. K.), á sæti hjer í hv. deild og getur því leiðrjett orð mín, ef öfugmæli eru.

Og þegar forði landsverslunarinnar er orðinn talsverður, varasjóður álitlegur og stjórn hennar komin í ágætishendur, eins og hv. þm. Snæf. (H. St.) segir, þá vonast jeg til, að við getum verið sammála um, að málið horfi vel við.