21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Magnús Pjetursson:

Það hlýtur að vera annaðhvort misskilningur eða þá útúrsnúningur hæstv. fjármálaráðh., þar sem hann var að tala um, að jeg væri að leggja á móti frv. Jeg sagði, að jeg væri í sjálfu sjer ekki á móti þeirri stefnu, að leggja einhvern skatt á í þessu efni, þótt jeg hefði ýmislegt að athuga við þetta frv, sem jeg vildi benda nefndinni á. Þetta tók jeg fram, og hæstv. fjármálaráðh. gat vel heyrt það, ef hann einungis vildi heyra rjett og taka eftir.

Mjer heyrðist á hæstv. fjármálaráðh., að skattur þessi yrði ekki lagður á fyr en komið væri yfir 30.000 kr. tekjur. í frv. stendur „30.000 eða meira“ og talað um skatt af tekjum frá og með 30.000. Jeg held, að hæstv. fjármálaráðh. hafi ekki lesið, eða að minsta kosti ekki skilið til fulls það frv., er hann ber sjálfur fram, ef hann segir, að þetta sje ekki rjett.

Það er alveg satt hjá hæstv. fjármálaráðherra, að aðrar þjóðir hafa tekið upp einhverja gróðaskatta, en þær hafa farið ýmsar leiðir í því efni. Sumar hafa farið þá leið, að láta sveitar- og bæjarfjelög hafa fyrir því að ná skattinum af mönnum. Og það var það, sem jeg vildi láta athuga, að ekki væri gengið inn á það svið, sem sveitarfjelögin hafa, eða skertir möguleikar þeirra til þess að ná auknum dýrtíðarskatti af stóreignamönnum, því að þar væri þörfin meiri en hjá landssjóði.