17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

50. mál, kolanám í Gunnarsstaðagróf

Magnús Pjetursson:

Mjer finst ekki hægt að komast hjá því að gera svolitla grein fyrir tildrögum þessa máls, svo að háttv. þm. geti greitt atkv. um málið.

Á þinginu í fyrra var samþykt áskorun til stjórnarinnar um að vinda sem bráðastan bug að innlendu kolanámi, til þess að fullnægja eldiviðarþörf landsmanna. Síðasta sumar fór jeg þess á leit við landsstjórnina, hvort hún væri ekki fáanleg til þess að láta reka námugröft á þessum stað, sem till. talar um. Svaraði stjórnin með því að lýsa yfir því, að hún hefði ekki í huga að reka námugröft á landssjóðskostnað annarsstaðar en á Tjörnesi. Síðastliðið sumar var því ekki hægt að gera neitt frekar í því efni, en í vetur sáum við Strandamenn, að það dugði ekki að láta við svo búið standa, ef mönnum væri nokkur alvara með að birgja sig upp með eldsneyti. Mönnum var það fyllilega ljóst, eftir veturinn í vetur, að eitthvað yrði að gera, eitthvað betur en gert var af hálfu landsstjórnarinnar. Þess vegna tók sýslufundurinn að sjer að hreyfa þessu máli, fyrst sem ósk til stjórnarinnar um það, að hún gerði þá skyldu sína, sem þingsályktunartillaga síðasta þings fór fram á, það, að hún ljeti beinlínis reka námugröft í Gunnarsstaðagróf. En vegna þess, að sýslunefndin þóttist mega vera sannfærð um það, að stjórnin tæki að sjer námugröftinn, mundu kolin verða miklu dýrari en ef einstakir menn tækju hann að sjer, eða þá sýslufjelagið. Var þetta bygt á reynslu þeirri, sem fengist hefir.

Þá bauðst hún (sýslunefndin) til þess að taka að sjer námureksturinn, með því skilyrði, að lagður yrði akfær vegur frá námunni til sjávar og að landsstjórnin lánaði verkfæri til þess að vinna námuna með. Og það er einmitt þessi brtt., sem jeg ber nú fram.

Það er auðvitað, að till., eins og hún kemur frá háttv. Ed., meinar nokkuð svipað. Jeg geri nefnilega ráð fyrir því, að þessum 10 kr., sem ætlaðar eru til verðlauna fyrir hverja framleidda smálest, mætti verja til þess að gera þennan veg fyrir. Mjer finst það samt sem áður hálfhjákátlegt að vera að binda slík verðlaun eingöngu við þetta sjerstaka verk, sem landssjóður kostar ekki, með því að landssjóður ekki heldur alment veitir verðlaun fyrir kolagröft. Það er líka hugsanlegt, að það sje betra fyrir landssjóð að gera veginn heldur en að þurfa að borga verðlaun fyrir hverja smálest, kann ske mörg hundruð kr. Mjer þykir líklegt, áð það geti orðið honum miklu dýrara heldur en að leggja þennan vegarspotta og lána verkfærin. Svo koma þeir peningar fyrst eftir á, og þá þyrfti sýslan að taka lán til bráðabirgða til verksins.

Jeg býst nú við, að háttv. þm. muni vilja fá að vita, hve mikið landssjóður muni þurfa að leggja í þennan veg, en því miður hefir ekki verið gerð nein áætlun um það, en þó geta hv. þm. fengið nokkra hugmynd um það, þegar jeg segi þeim, að þessi vegalengd er 2.200 metrar; vegurinn verður það sneiddur.

Sá maður, sem látinn hefir verið rannsaka þessa námu fyrir landsstjórnina, hefir skrifað hjer lýsingu á vegarstæðinu og hvað helst muni þurfa að gera, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp, því að það gefur hugmynd um, hvað kostnaðurinn muni þurfa að verða. Hann segir:

„Jeg hafði ekki tíma til að mæla halla á vegarstæði til sjávar, en jeg mældi vegalengdina til sjávar eftir því vegarstæði, sem mjer virtist kerrufært, með auganu. Mældist mjer þannig vegalendin öll til sjávar 2.200 metrar … Á að giska liggur fullur helmingur þess vegar, er jeg mældi, um mela, sem ekki þarf annað við að gera en að ryðja, svo að hann verði kerrufær, og allmikið stykki má gera kerrufært með því að nema burtu grasþúfur, en á köflum þarf að gera upphleypta vegarspotta yfir lækjar- og mýradrög og búa til sneiðingu utan í brekkum ...“

Af þessu held jeg að menn geti fengið nokkurn veginn hugmynd um, að hjer er ekki verið að ræða um stórfyrirtæki; það er ekki verið að ræða um akbraut, heldur að eins um akfæran veg, sem hægt er að koma kerrum eftir til sjávar.

Í áliti sínu hefir vegamálastjórinn ekki talið það frágangssök, að landssjóður legði svo sem 1.000 kr. fram, og mundi það hjálpa mikið, þótt það mundi ef til vill ekki nægja fullkomlega, en um það fullyrði jeg ekki neitt að svo komnu máli. Einn háttv. þm. skaut því fram, hvort sæmileg höfn væri fyrir námulandinu, og það er hægt að segja það, að þar er yfirleitt góð höfn og ágætt bátalægi og lending. Annars bjuggumst við við að hafa lausar bryggjur, en skipin geta hæglega legið fram undan og tekið kolin þar, sem þau koma fyrst til sjávar, án frekari flutnings.

Mjer er kunnugt um, að háttv. bjargráðanefnd hefir haft þetta mál til meðferðar, en þótt undarlegt megi virðast, þá er málið ekki komið frá henni inn í þessa deild, heldur kom það fyrst til Ed., og þaðan er það komið til þessarar háttv. deildar. Að bjargráðanefnd skeytti ekki málinu mun hafa verið af því, að vegamálastjóri hefir ekki lagt nægilega mikið með því. Jeg símaði því til Guðmundar Bárðarsonar og vildi fá hjá honum skýlaust álit hans á útlitinu fyrir námugrefti í Gunnarsstaðagróf, og hann segir svo í símskeyti til mín, að þykt laganna sje ca. 1 m., að hægt sje að taka upp nokkur hundruð smálestir, með því að ryðja ofan af 1— l½ m. af lausum jarðlögum, og að gæði kolanna sjeu síst verri en Tjörneskolanna. (E. A.: Ekki mikið sagt með því). Þetta er þó það eldsneyti, sem þektast er hjer á landi, er um innlend kol er að ræða, og er því eðlilegt, að við það sje miðað.

Það, sem vegamálastjórinn hafði aðallega á móti kolanáminu, var það, að jarðvegurinn, sem liggur ofan á kolalögunum, sje svo laus, að hann muni þegar hrynja niður, er farið sje að grafa, nema því að eins, að námugöngin sjeu bygð upp og reft jafnóðum og grafið sje.

Nú álítur Guðmundur, að vel sje hægt að taka upp nokkur hundruð smálestir án þess að grafa nokkur námugöng, að eins með því að moka ofan af kolalögunum, og álítur hann, að allur viðbúnaðurinn, sem vegamálastjóri var að tala um, sje með öllu óþarfur, meðan um lítið kolanám er að ræða. Jeg tel víst, að þingið sje alt sammála um, að ekki megi það undir höfuð leggjast að afla íslensks eldneytis, og því skil jeg ekki, að það geti neitað svona góðu tilboði frá sýslunefndinni, þar sem hún býðst til að taka verkið alveg að sjer upp á eigin ábyrgð, og fer að eins fram á, að landssjóður leggi þennan lítilfjörlega vegarspotta og láni verkfærin. Jeg fyrir mitt leyti tel þetta stórlega góð boð.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta mál, en áður en jeg sest niður ætla jeg að minnast á ósk sýslunefndarinnar um, að landssjóður lánaði verkfæri til vinnunnar. Þessari ósk sýslunefndar neitaði vegamálastjóri og færði það til, að verkfærin mundu ganga svo mikið úr sjer, og mundi landssjóður hafa skaða af, en hann sagði aftur á móti, að komið gæti til mála, að landssjóður seldi sýslunefnd verkfæri og keypti þau svo aftur, þegar sýslunefnd hefir notað þau. Mjer finst nú þetta vera nokkuð sama og að landssjóður keypti verkfærin og lánaði svo sýslunefndinni, sem síðan borgaði fyrningu og skemdir, eftir mati dómkvaddra manna. (H. K.: Nei, það er munur á). Jeg sje ekki muninn, en gaman væri, ef háttv. þm. (H. K) vildi útskýra, í hverju hann er fólginn.

Til þess að sýna, að talsverð eftirspurn er eftir kolum þessum, skal jeg geta þess, að landsstjórnin hefir fengið beiðni frá Hvammstanga um leyfi til að taka upp í námunni 40—50 smálestir af kolum. Jeg get vel skilið, að landsstjórnin vilji verða við þessari bón, og satt að segja get jeg ekki þakkað henni það, en ef ætti að gera þetta þannig, að kolin gætu orðið til verulegs gagns fyrir menn, ekki eingöngu fólk í næsta nágrenni, heldur umhverfis allan Húnaflóa, þá finst mjer sjálfsagt, að sýslunefndin sæti í fyrirrúmi og stæði fyrir verkinu. Jeg get tekið það fram, að sýslunefndin ætlar að selja kolin eins ódýrt og hún sjer sjer fært, og að eins svo, að hún sleppi skaðlaus, og sjá því allir, hversu miklu rjettara það er að láta hana sitja fyrir því að láta vinna verkið heldur en hleypa einstökum mönnum í námuna, sem síðan kynnu að selja kolin aftur dýru verði. En jeg skal taka það fram, að þetta meina jeg alls ekki til þeirra manna á Hvammstanga, er óskað hafa eftir námuafnotum, því að þeir gera það að eins sjer til bjargar.