18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki að hefja umr. um þetta mál, því það hefir orðið að samkomulagi milli mín og hv. meiri hl. nefndar þeirrar, er um málið fjallaði, að leyfa því að fara til 3. umr., án þess þó, að hv. meiri hl. sje á nokkurn hátt bundinn við að fylgja frv. lengra.

Hitt hefir komið til álita milli hv. meiri hl. og stjórnarinnar, að athuga betur það, sem farið er fram á í frv. stjórnarinnar, og athuga, hvort ekki megi fara aðra leið að líku marki sem frv. hefir fyrir augum. Ekkert er samt ráðið um það af hv. meiri hl.

Ef hv. deild vildi leyfa frv. að ganga til 3. umr., þá væri það mjög æskilegt, og jeg vildi leyfa mjer að mælast til þess, að svo verði gert, og sömuleiðis vildi jeg mælast til, að hv. minni hl. vildi bíða með brtt. sínar þangað til sjeð verður, hvernig málin ráðast.