01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Sigurður Stefánsson:

Mjer kom það dálítið á óvart, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) skyldi gera það að sinni till., að þessu máli yrði vísað til fjárveitinganefndar, þar sem önnur nefnd hefir fjallað um málið og látið uppi sitt álit um það. það mun vera einsdæmi í þingsögunni að flækja málum svona milli nefnda og vísa til einnar, er önnur hefir athugað alt gaumgæfilega. Jeg verð því að telja þetta beinlínis bera vott um vantraust á allsherjarnefndinni, þar sem nærri liggur að ætla, að hv. þm. (E. A.) telji hana hafa farið svo illa með málið, að ekki veiti af, að önnur nefnd athugi það betur. Og jeg verð að segja, að mjer finst þetta vantraust koma úr hörðustu átt, þar sem það kemur frá hv. 2. þm. Árn. (E.A.), sem er formaður allsherjarnefndar. Jeg verð því að segja, að þetta hlýtur að vera leikur hjá hv. þm. (E. A.), ef þá ekki blátt áfram skrípaleikur, að vera að flækja þessu máli svona fram og aftur á milli nefnda.

Jeg álít öllu launamálinu vera komi í óvænt efni, eins og því er nú komið. Hingað inn á þingið hafa ruðst bænarskrár frá embættismönnum, sem fara fram á, að laun þeirra verði bætt. Jeg er ekki að ásaka embættismennina fyrir þetta, því þar sem þeim sumum hverjum er smánarlega illa launað, þá er þetta ekki nema eðlilegt, en jeg ásaka stjórnina fyrir þetta, því að öll óreiðan, sem á þessu máli er hjer á þingi, er henni að kenna.

Á þinginu 1913 var ákveðið að setja milliþinganefnd, sem rannsaka skyldi og koma með tillögur um þetta launamál. Þessi nefnd, þar sem meira að segja hæstv. forsætisráðh. átti sæti, leggur svo fram nefndarálit sitt 1916. Það hefði því mátt ætla, að stjórnin hefði næg gögn í höndunum í þessu máli og nægilega þekkingu til þess að leggja hjer fram fyrir þingið frv. til almennra launalaga. En af einhverjum sjerstökum ástæðiun hefir stjórninni ekki unnist tími til þess. En þó verð jeg hins vegar að álíta, að málið hafi verið svo vel undirbúið, að hefði stjórnin verið ekki með öllu ónýt, þá hefði það þó ekki verið neitt sjerstakt þrekvirki, einkum þar sem nú stjórnin telur þrjá menn.

Jeg skal játa það, að tímarnir, eins og þeir nú eru, eru mjög svo óheppilegir, þó jeg viti og játi, að brýn þörf sje á að bæta laun embættismanna, en á þeirri þörf yrði engin bót ráðin, þú þingið gerði þar á einhverjar kákbætur, og jeg hjelt satt að segja, að það mundi ekki verða aðalstarf þessa þings, að vera að grúska, að gagnslausu, í svona málum. Ef taka hefði átt þetta mál til yfirvegunar og rannsóknar hjer á þinginu, var það skylda stjórnarinnar að koma með það undirbúið, en þar sem hún gerði það ekki, var þingið löglega afsakað að ansa þessum kröfum. Það eina svar, sem þingið getur gefið við þessari kröfu, eins og nú stendur á, er að gera breytingar á dýrtíðaruppbótarlögunum, en láta bætur á föstum launum bíða um stund. Hins vegar þolir þetta mál ekki langa bið, en það þolir þá bið, að ekki sjeu gerðar einhverjar kákbætur á launum einstakra embættismanna, sem rifnir eru út úr heildinni; slíkt kák veldur misrjetti og óánægju annara embættismanna, sem líkt stendur á fyrir.

Jeg vonast því til þess, að stjórnin taki alt þetta mál til yfirvegunar og leggi sem fyrst fyrir Alþingi frv. til laga um laun embættismanna. Best væri ef það yrði ekki fyr en að ófriðnum loknum, en ef til vil þolir það ekki svo langa bið. Í sambandi við þessi orð mín vil jeg því leyfa mjer að koma fram með rökstudda dagskrá, sem þannig er orðuð:

„Með þeirri áskorun til landsstjórnarinnar, að hún taki alt launamálið til rækilegrar meðferðar og leggi fyrir næsta Alþingi frv. til almennra launalaga, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.