01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (2357)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla að eins að gera dálitla athugasemd um þingsköpin. Hv. sessunautur minn, þm. N.-Ísf. (S. St.), var að tala um, að það væri lítilsvirðing við allsherjanefnd, ef máli, sem hún hefir haft til meðferðar, er vísað í aðra nefnd. Þetta er misskilningur. Enda sýnir það sig best, hvers trausts og virðingar þessi nefnd hefir notið hjá deildinni, að fjórir fimtu hlutar allra þeirra mála, sem borin hafa verið fram, hafa verið falin hennar forsjá að öllu leyti. Það brygði því undarlega við, ef nú þyrfti í þessu skyni að vísa máli frá henni til annarar nefndar. En þessa þarf í öðru skyni. Það hefir gleymst að leita álits fjárveitinganefndar um fjárhagshlið málsins. En það ber að gera um hvert það mál, sem ný útgjöld hefir í för með sjer. Jeg vil leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þá málsgrein úr 16. gr. þingskapanna, sem svo kveður á:

„Nú er borið upp frumvarp eða þingsályktun, sem fer fram á aukin útgjöld úr landssjóði, og er því máli vísað til nefndar, og skal þá sú nefnd, ef hún ætlar að mæla með frumvarpinu eða tillögunni, leita álits fjárveitinganefndar í málinu“.

Nú er það að vísu rjett, að meiri hluti nefndarinnar ætlar sjer ekki að mæla með frv., og þyrfti því ekki að leita álits um fjárveitinguna. En minni hlutinn mælir með frv., og honum bar að styðja meðmæli sín við álit fjárveitinganefndar. Hvort sem það er meiri eða minni hluti nefndar, eða nefndin öll, sem leggur til, að mál verði samþykt, þá hlýtur sama skyldan að hvíla á þeim, sem það gerir, — þó það sje ekki nema einhver hluti nefndar, — að leggja málið fyrir fjárveitinganefnd, ef það fer fram á aukin útgjöld. Jeg bendi á þetta, til þess að sýna fram á, að það getur ekki verið rjett, að allsherjarnefnd sje sýnd nein óvirða, þó málið sje nú látið ganga til fjárveitinganefndar. Það er eðlilegur gangur málsins og í samræmi við þingsköpin, að álits hennar sje leitað. Þá verður að sjálfsögðu að fresta þessari umr.; að öðrum kosti verður ekki farið með málið í nefndinni.

Það er því ekki mannskemd eða óvirðing fyrir nokkurn mann, þó þessu máli sje nú vísað til fjárveitinganefndar, en það ætti að verða málinu til gagns, að það verður nú skoðað af fleirum, svo fleiri geti látið álit sitt á því í ljós. Þetta er að eins athugasemd um þingsköpin,

en ekki nein almenn yfirvegun um málið.