01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2358)

5. mál, laun íslenskra embættismanna

Frsm. minni hl. (Einar Arnórsson):

Jeg ætla að eins að gera örstutta athugasemd, út af ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hann taldi það skrítið að fara að vísa málinu til fjárveitinganefndar. Hv. þm. ætti þó að skilja, að þetta er ekki á móti þingsköpunum. Þau banna það alls ekki, að máli sje vísað til annarar nefndar, þótt ein hafi um það fjallað. Það er meira að segja heimilt að vísa sama máli til sömu nefndar og áður hefir haft það til meðferðar, og er þó ekki minna vantraust í því. Það er rjett athugað hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að þó það sje ekki nema minni hluti nefndar, sem mælir með einhverju máli, þá verður hann að bera það undir fjárveitinganefnd, sje um útgjöld að ræða. Jeg verð að viðurkenna, að það er mín sök, að þetta mál hefir ekki verið borið undir hana. — En að jeg kem með þessa till. nú, kemur hvorki af trausti nje vantrausti á mjer eða allsherjarnefnd. Hjer í deildinni var samþ. þingsályktun um það, að fjárbeiðnum frá einstökum embættismönnum skuli ávalt á þessu þingi vísað til fjárveitinganefndar. Nú er þetta mál að vísu ekki fjárbeiðni að forminu til, heldur sprottið af beiðni hlutaðeigandi embættismanna til stjórnarinnar að taka þetta mál til meðferðar. Nú er altaf verið að tala um það í þessari hv. deild, að ekki megi taka einstaka flokka út úr heild, heldur eigi að fá yfirlit yfir málið alt, og það er, eftir mínum skilningi, ástæðan til þess, að þingsályktunin um að fela fjárveitinganefnd þessi málefni er komin fram. Jeg vona, að hv. deild sje samþykk þessum skilningi.

Þess vegna álít jeg rjettast, að þetta mál, sem launamál, eigi að fara til sömu nefndar, til þess að hún reyni að koma einhverju „systemi“ í það. Hvort þetta, að máli, sem ein nefnd hefir farið með, sje síðar vísað til annarar, hefir komið fyrir áður í sögu þingsins, varðar mig ekki um; það er jafnrjettmætt í þessu efni fyrir því, fyrst það er í samræmi við þingsköpin.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var alveg sammála hv. þm. N.-Ísf. (S. St), og hefi jeg því svarað honum um leið. Það, sem hann sagði, var ekki annað en upptugga úr hinum. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var eins og skuggi af hv. þm. N.-Ísf. (S. St). Þegar menn hafa fengið „originalinn“, þá þýðir ekkert að vera að eltast við „kopiuna“.

Mjer skildist á hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að hann álíti, að launamálið þyldi enga hið. Jeg er honum alveg samdóma um það. En hvernig stendur þá á því, að hann kemur fram með dagskrá, sem fer alveg í öfuga átt við þessi rjettmætu orð hans. Jeg felst á það, að fyrst stjórnin hreyfði launamálunum á annað borð, þá sje notað tækifærið til þess að gera heildaryfirlit yfir þau, þó ekki væri nema til bráðabirgða, t. d. meðan stríðin stendur. — Ef dagskráin verður samþykt, þá verður afleiðingin sú, að þessi mál verða ekki tekin til meðferðar á þessu þingi. Samkvæmt þingsköpunum má ekki taka fyrir á sama þingi frv., sem felt hefir verið, nje heldur frv. um sama efni. Nú telst það frv. fallið, sem afgreitt er með dagskrá. Á þessu þingi mætti þá ekki taka upp frv., sem fer fram á að hækka laun þeirra embættismanna, sem nefndir eru í þessu frv., og með því, að samþ. væri að taka ekki einstaka flokka út úr heildinni, væri ekki hægt að bera fram hækkun á launum annara embættismanna eða starfsmanna, nema þessir væru teknir með. Kjör allra starfsmanna yrðu því að standa í stað. Jeg skil því ekki í því, að hv. deildarmenn geti fallist á þessa dagskrá, af þessum ástæðum, auk þess sem það dylst ekki, að kjör þeirra manna, sem frv. þetta ræðir um, eigi að bæta, því engir eiga í raun og veru meiri sanngirniskröfu til launahækkunar en einmitt þeir.

Jeg legg því til, að mín till. verði samþ., hvort sem hún verður skoðuð sem vantraustseða traustsyfirlýsing til allsherjarnefndar. Eins og málinu er komið verður að álíta rjettast að fresta umr. og vísa málinu til fjárveitinganefndar.