31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Verði brtt. nefndarinnar samþyktar, yrði skatturinn mun minni en gert er ráð fyrir eftir frv. stjórnarinnar. Er það einkum vegna þess, að háttv. nefnd vill eigi láta þennan nýja skatt koma til greina fyr en tekjurnar nema 50.000 kr. Á skattinum af lægri tekjum er engin breyting er frá lögum þeim, er nú gilda.

Jeg get vísað til ummæla minna við 1. umr. þessa máls, að tekjur, sem fara fram úr 30.000 kr., eru svo háar, að ekki er neitt við það að athuga, þótt talsvert sje af þeim tekið.

Eftir brtt. nefndarinnar skilst mjer, að skattur samkvæmt gildandi tekjuskattslögum og þeim nemi af fyrstu 100.000 kr. 16—17,000 kr., en af næstu 100.000 verði skatturinn samanlagður fjórðungur teknanna eða 25 af hundraði. Verði brtt. nefndarinnar samþyktar, býst jeg við því, að landssjóði hlotnist þarna nokkur tekjuauki, en fyrir mitt leyti kysi jeg helst, að stjórnarfrv. yrði samþykt óbreytt.

Jeg get fallist á, að það er hart að leggja mjög háan skatt á útgerðarmenn. Þeir leggja svo mikið fje í hættu, en hins vegar er útgerðin svo mikilsvarðandi fyrir alt landið, að rjett væri að gera upp á milli tekna þeirra og kaupmannagróða, ef þess væri nokkur kostur. En jeg get ekki sjeð neina leið til þess.

Skal jeg svo ekki orðlengja um málið, en leyfi mjer að mæla með því, að stjórnarfrv. verði samþykt óbreytt. Fallist háttv. deild ekki á það, er auðvitað mikil bót að till. nefndarinnar, og er miklu betra en ekki neitt að samþykkja þær.