31.05.1918
Neðri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Fjármálráðherra (S. E):

Jeg skal játa, að mjer virðist það mjög erfitt að auka tekjur landssjóðs að mun, eins og mjer þó hefir virst vera vilji háttv. deildar og Alþingis, ef ekki verður snúið að þessum tekjustofni. Mjer finst sannarlega, að þegar gróðinn er stiginn svo hátt, að hann er orðinn yfir 30.000 kr., þá sje það ekkert óeðlilegt, að skattur sje lagður á þann gróða, og það ekki síst, er litið er til þess, að þessi mikli gróði er skapaður af sömu ástæðum og tapið hjá öðrum, af stríðinu. Stríðið er orsök þess, að sumir græða mjög mikið, en sumir verða mjög illa staddir. Það virðist þá ekki nema rjett, að þingið taki hjer fram í, minki gróðann og styrki þá, sem stríðið hefir bakað örðug eða óbærileg lífskjör. Jeg held, að þetta sje viðurkent rjett um allan heim. Og jeg held, að ef ekki er hægt að fá Alþingi til að samþýðast þessa stefnu í skattamálum, þá sje það mjög rangt af þeim mönnum, sem ekki geta fallist á hana, að áfellast stjórnina fyrir að koma ekki með tekjuaukatillögur.

Það er engan veginn rjett hjá háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.), að nefndin hafi gerbreytt frv. stjórnarinnar. Nefndin hefir breytt svo, að skatturinn verður lægri, og skattur tapast á sviðinu 30—50 þús. kr. En þegar litið er á skattaútkomuna í heild sinni, þá er ekki að ræða um gerbreytingu.

Eftir till. stjórnarinnar er skatturinn af fyrstu 100.000 kr. h. u. b. 9.600 kr. en eftir till. nefndarinnar er sami skattur h. u. b. 3.650 kr. Af næstu 100 þús. er skatturinn samkvæmt till. stjórnarinnar 15.000 kr., en eftir till. nefndarinnar 10,000 kr. o. s. frv. Á fyrstu 100 þús. kr. hvíla því, ef stjórnarfrv. verður að lögum, samkvæmt því og gildandi tekjuskattslögum, h. u. b. 22.420 kr., en á þeim næstu 30 þúsundir o. s. frv., en ef till. nefndarinnar verða samþ., þá hvíla samtals á fyrstu 100.000 kr. h. u. b. 16.470 kr., en á næstu 160.000 kr. 20 þúsundir o. s. frv.

Sannleikurinn er sá, að háttv. nefnd hefir, sem betur fer, haldið áfram á sömu braut og stjórnin. Það er ekki „princip“-munur, heldur stigmunur, á brtt. og frv., svo að skatturinn kemur ljettar niður, en breytingin getur orðið til þess, að landssjóður missi allmiklar tekjur, þar sem þeir menn, sem hafa 100 þús. kr. tekjur eða meira, eru ekki ýkja margir, en margir, sem hafa í tekjur 30—50 þús. kr.

Jeg sje í raun og veru ekki ástæðu til að halda lengri ræðu. Spurningin er, hvort hjer á að fylgja stefnu nefndarinnar og fá á þann hátt minni tekjur, eða þá samþ. stjórnarfrv. óbreytt. Jeg hygg betra að samþ. stjórnarfrv. og held það með öllu verjandi, eftir þeim tímum, er nú standa yfir, að taka háan skatt af þeim gróða, sem stríðið hefir skapað, því að það hefir eigi síður skapað örðugleikana fyrir þá mörgu, og er þess vegna sjálfsagt að taka mjög mikið tillit til þessa í skattalöggjöfinni.