14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Sigurður Sigurðsson:

Jeg verð að fá að segja örfá orð, en skal reyna að vera stuttorður. Ástæðan er sú, að það hefir verið reynt, vísvitandi eða óafvitandi, að misskilja till. mína á þgskj. 94. Það var fyrst hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem hjelt því fram, að ef mín till. væri samþykt, gæti það leitt til þess, að það yrði farið að vinna að Flóaáveitunni, en með því gæti heildarframkvæmdin raskast. En þetta er bygt á misskilningi, því að þótt einhver hluti verksins væri tekinn til dýrtíðarvinnu, þá þarf það ekki á nokkurn hátt að koma í bág við það, sem síðar verður gert, og mikill hluti af þessu verki verður að vinnast með algengum verkfærum og mannafla, og sá hluti verksins, sem tekinn yrði til dýrtíðarvinnu, ætti þá að sjálfsögðu að vera sá, sem ekki verður hægt að vinna öðruvísi. Þá skal jeg taka það fram, að till. er alls ekki, út af fyrir sig, miðuð við það að útvega mönnum þar eystra dýrtíðarvinnu; hugsast getur það náttúrlega, að einhverjir menn af Stokkseyri og Eyrarbakka væri þurfandi fyrir slíka vinnu, heldur hitt, að þarna er vinna fyrir menn, sem eru atvinnulausir hjer í Reykjavík og jafnvel Hafnarfirði.

Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra fram með þá grýlu, að þetta sje svo langt í burtu. Vil jeg þá í sambandi við það benda á, að menn af frjálsum vilja leita sjer atvinnu norður í land og austur, og annað hitt, að landsstjórnin sjálf sendir menn bæði norður í Húnavatnssýslu og norður á Tjörnes og fleiri staði, í vegavinnu og ýmislegt annað. Og því má þá ekki á neyðartímum senda nokkra menn austur til vinnu? Nei, þessi ástæða finst mjer vera hjegómi, sem reki sjálfri sjer utan undir.

Jeg benti áður á það, að Tjörnesnáman lægi miklu lengra í burtu, en þá er því skotið að mjer, að hún hafi ekki verið ætluð til þess að útvega mönnum dýrtíðarvinnu.

En jeg vil segja, að tilgangurinn með Tjörnesnámunni hafi líka verið sá, að veita mönnum þar vinnu. Og hvað vegalengdinni viðvíkur, þá liggur Tjörnesnáman lengra frá en Flóinn. Jeg vona, að till. mín verði samþykt. Og þó að stjórnin tæki part af Flóaáveitufyrirtækinu til dýrtíðarvinnu eða dýrtíðarráðstafana , þá verður hún aldrei ver úti en hún er orðin, að því er Tjörnesnámuna snertir.