14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Bjarni Jónsson:

Menn eru vanir að hafa hjer nokkurn formála fyrir ræðum sínum, og minn er sá, að jeg lofa engu góðu.

Hv. sessunautur minn, þm. N.-Ísf. (S. St.), talaði um, að engin veruleg neyð væri hjer á landi enn þá. Alment talað mun svo hafa verið viðast hvar, en þess er jeg viss, að á ýmsum stöðum hefði orðið veruleg neyð, ef ekki hefði verið hjálpað í. vetur; t. d. hjer í Reykjavík hefði orðið barnadauði og líklega hungurdauði, hefði stjórnin ekki hlaupið undir baggann. Hitt er annað mál, að ekki er hægt að finna þær atvinnugreinar, er gefa fullkomna eftirtekju, þegar að þeim er unnið á harðasta tíma árs, en það er ekki lögunum eða stjórninni að kenna, heldur fyrirhyggju Alþingis, að láta hjá líða sumartímann og leyfa mönnum ekki að vinna að atvinnubótum á þeim tíma, en þar af leiðir, að þegar veturinn kemur og þrengjast fer í búi hjá mönnum, þá verður að fara að veita mönnum vetraratvinnu. Það er eins víst, að hjer og á Ísafirði hefði orðið veruleg neyð, ef ekki hefði verið hjálpað.

Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var að tala um, að svo liti út, sem gjaldþol manna væri engu minna nú heldur en 1917. En þetta mun ekki rjett, því að það mun vera víst, að árið 1917 hafi fullkomlega etið upp gróða fyrri stríðsára. (P. J.: Ókunnugleiki). Það skyldu þá helst vera bændur norðanlands, er segðu annað, en bændur hjer sunnanlands og vestan og útgerðarmenn hafa sagt mjer þetta, svo að jeg þarf ekki að standa hjer og biðja menn um að trúa orðum mínum, sem bygð eru á sögn mannanna sjálfra. (G.Sv.: Þetta er ekki rjett). Jeg ætla mjer ekki að fara að þræta við hv. þm. hjer á þessum stað, úr því að hann getur ekki skilið, en það kom mjer á óvart. En annars eru menn ekki hjer að ræða það, sem verið hefir, heldur eru menn hjer að ræða það, sem verða kann, og hverjar ráðstafanir sjeu gegn því, sem verða kann, þ. e. að hitta ráð til þess að hjálpa á komandi vetri, ef menn skyldi bera upp á sker.

Hver ráð eru þá heppileg?

Stjórnin hefir farið fram á að veita hverjum manni dálitla fjárupphæð til styrktar. Jeg held, að stjórnin hafi gert rjett í því að hafa styrkinn ekki meiri en þetta, því að hann er mátulega mikill þar sem fjeskortur getur komið að tjóni, því að styrkurinn bætir þó töluvert þar sem verst er. Hjer hefir verið rætt um lántökur, svo að hrepps- og bæjarstjórnir gætu fengið fje, ef að krepti. En væri ekki betra, að landið lánaði mat, því að ekki er að vita, hvað peningarnir notuðust vel, og ávalt er það að bíta í skottið á sjálfum sjer að vera að lána mönnum peninga til þess að kaupa fyrir vörur af sjálfum sjer. Þá ætti hv. meiri hl. heldur að koma með till. um það, að stjórninni væri heimilt að liða menn um borgun fyrir mat, er þeim liggur á að fá. Þetta er ekkert óþekt, því að iðulega hefir það komið fyrir hjer á landi, að verslanir hafa lánað mat og beðið eftir borguninni þar til betur áraði. En nú skulum við athuga, hvernig þetta verður. Það mætti segja, að lánin væru ágæt, ef hægt væri að kaupa mat fyrir þau, en ef að eins á að útvega peningana, þá sje jeg ekki annað en með því sje verið að skjótast undan allri hjálp við almenning, þar sem ekki má nota þá fyr en í ítrustu neyð. Þetta get jeg sannað. Þegar t. d. svo er komið norður á Langanesi, eða austur í Skaftafelssýslum, að veruleg neyð stendur fyrir dyrum, þá verður sveitarstjórnin fyrst og fremst að fá skipaða eftirlitsmennina, sem undir eiðstilboð eiga að rannsaka alt ástand sveitarinnar, að því loknu semja þeir svo sína skýrslu, og ef sú skýrsla lætur illa yfir ástandinu, þá fyrst getur sveitarstjórnin sent lánbeiðnina til stjórnarinnar. Lánbeiðnin yrði, með hinum ágætu samgöngum, sem hjer eru, nokkra mánuði hingað til Reykjavíkur, og þá fyrst væri hægt að fara að kaupa vörur. Meðan á þessari rekistefnu stendur hefir hjeraðið verið statt í hinni ítrustu neyð, svo að megnið af íbúunum væri dautt, eða að dauða komið, þegar hjálpin kemur. Væri ekki brotaminna að láta sveitarstjórnirnar fá vörur hjá landsstjórninni, sem þær svo gætu úthlutað meðal fátæklinga sinna? (8. St.: Hví kom ekki þm. með þetta fyr?). Það var af því, að jeg var ekki í bjargráðanefnd, en vissi hins vegar, að hún hafði á að skipa öðrum eins búfork og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), og jeg bjóst því við, að hann, sem verið hefir prestur og sálnahirðir á Ísafirði í 50 eða 100 ár, mundi hitta á það.

Svo er eitt ágætt atriði, og það er þetta: „Lán eftir lögum þessum skulu ekki teljast sem sveitarstyrkur“. Meiningin er, að maður á að gjalda þess, ef maður er í efnuðu sveitarfjelagi, og þá á að skerða mannrjettindin, en ef maður er í fátæku sveitarfjelagi, þá á maður að njóta þess. Þetta er ekki illa hugsað, og mjer þykir mjög gott að vita, hversu margir ágætismenn hafa skrifað nöfn sín hjer undir.

Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) tók það fram, að bankarnir mættu ekki lána sveitarfjelögum, sem komin væru að hungurdauða. Þetta er ný kenning, en satt er það, að það er ekki sá vanalegi gróðavegur, sem bankarnir fara. En þegar bjarga þarf frá hungurdauða, þá verða þeir að hjálpa meðan þeir geta. Þeir eru skyldugir að gera það. Það gæti auðvitað staðið svo á, að bankarnir hefðu ekkert handbært fje, vegna þess að þeir ættu svo mikið úti, og það skil jeg, að þeir þá geta ekki lánað. Annars hygg jeg, að sá rjetti vegur, sem þá ætti að fara, til þess að tryggja menn fyrir voða í framtíðinni, voða, sem stafar af ónýttum atvinnuvegum, væri að nota og hagnýta sjer gæði landsins, sem frekast mætti, svo að þjóðin þyrfti ekki að verða hungurmorða, þótt hún yrði einangruð á sínu eigin landi. En að hún verði einangruð getur orðið með svo mörgu móti.

Það er alkunna, að yfir standa samningar við aðra hlið ófriðarins. Þeir geta orðið hagkvæmir, en þeir geta líka orðið svo óhagkvæmir, að landsmönnum verði meinað að flytja vörur til landsins. En setjum nú svo, að saman gengi og menn ættu von á að fá fæðu í sumar, þá er landið samt ekki trygt, vegna þess að það vantar samninga við hinn aðilann í þessari styrjöld, svo að það gæti vel verið, að þeir, einhverra hluta vegna, sæju ástæðu til þess að hindra vöruflutninga til landsins. Og nú geta menn sjeð, hversu brýn þörf er á, að mönnum verði komið í skilning um að nota landið.

Svo hygg jeg, að ekki þurfi að fara fleiri orðum þetta mál, en greiða mun jeg atkvæði á móti till. meiri hl., en með frv. stjórnarinnar og einhverjum af till. minni hl.