18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Framsm. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Frv. hæstv. stjórnar um dýrtíðar- og gróðaskatt tók miklum breytingum í neðri deild. Meiri hl. nefndarinnar í þessari deild leit aftur svo á, að stjórnarfrv. hefði farið í rjetta átt, eins og það var upphaflega, og að þessi deild eigi að færa það aftur í líka átt. Á síðustu tímum hafa tekjulindir landssjóðs minkað mjög vegna stríðsins, en útgjöldin aftur aukist af sömu ástæðu. Það verður því ekki hjá því komist að leita að nýjum tekjustofnum. En sú leit er vandasöm, því að hvorki mega skattarnir vera svo litlir, að landssjóð muni ekki um þá, nje svo þungir, að þeir þjaki um of landsmönnum. Nefndin er nú þeirrar skoðunar, að skattur á mönnum eigi að aukast, því meir sem gróði þeirra er. Þó má sama segja um þessa reglu sem aðrar, að hún sje ekki án undantekningar.

Frv. stjórnarinnar fór fram á, að sjerstakur gróðaskattur væri lagður á þá, sem hafa frá 30 þús. kr. í árstekjur, 5% hækkandi upp í 15%.

Till. fjárhagsnefndar fara ekki fjarri þessu, þó að ekki fari þær eins langt, og hefði meiri hl. nefndarinnar fyrir sitt leyti getað fallist á stjórnarfrv. óbreytt. En fjárhagsnefnd neðri deildar þótti þar byrjað á of lágum árstekjum og hundraðsgjaldið hækka of ört og of mikið. Samkvæmt þessari skoðun gerði hún brtt., sem voru samþykt í Nd., og er frv. í þeirri mynd komið til þessarar deildar. Eins og frv. er nú, er það að eins skuggi af því, sem það áður var. Má telja víst, að þó að það verði samþ. í þeirri mynd, mun landssjóð lítið muna um tekjuaukann. Það eru ekki margir landsmenn, sem hafa yfir 50 þús. kr. í árstekjur, en hinir eru ekki svo fáir, sem hafa frá 30—50 þús. kr. á ári. Ef landssjóð á að muna nokkuð um skattinn, verður því að leggja á þessar árstekjur.

Jeg skal fúslega játa, að skatturinn kæmi nokkuð misjafnlega niður, og jafnvel hart á sumum. Hann kæmi harðar niður á sjávarútvegsmönnum, sem leggja allar eigur sínar í hættu, því að sjávarútvegurinn er altaf fjárhættuspil; skatturinn kæmi miklu harðar niður á þeim en t. d. á heildsölunum, sem eiga nokkurn veginn vísan, áhættulítinn ársgróða. Þá er spurningin, hvort það eigi að sleppa þeim, sem eru vel færir um að greiða skattinn, vegna hinna, sem eru miklu færri, sem kynnu að tapa því eitt árið, sem þeir græða hitt árið. Til þess að koma á rjettum jöfnuði í þessu hefði eiginlega þurft að breyta tekjuskattslögunum frá 1877. En því er ekki hægt að koma við nú, og þess vegna tók nefndin það ráð, að fara meðalveg milli stjórnarfrv., eins og það var uppphaflega og eins og það kom úr höndum neðri deildar.

Eins og brtt. eru, ætti skatturinn ekki að þurfa að koma hart niður á nokkrum manni. En aftur miða þær til þess, að þeir greiði skatt sem geta og því eiga að gera það. Hjer er ekki verið að pína gjöld út úr mönnum að nauðsynjalausu. Landssjóður verður að fá tekjuauka, og þá er ekki önnur leið heppilegri en þessi. Jeg geri mjer því fastlega von um, að háttv. deild samþ. brtt., og jeg hefi ekki ástæðu til að halda annað en að háttv. neðri deild fallist líka á þær, þar sem frv. var breytt þar af að eins litlum meiri hl.