18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Framsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um að breyta frv., og skal jeg í stuttu máli gera grein fyrir skoðun minni hl.

Í fyrra var gerð viðbót við gömlu tekjuskattslögin frá 1877, og enn er verið að bæta áþekkum skatti ofan á alla hina. Tekjuskattslögin höfðu staðið óbreytt í 40 ár, og bera breytingarnar því nokkuð óðan að á þessum síðustu þingum. Vitanlega er það þörf landssjóðs, sem hefir leitt menn inn á þessa hálu braut, en það er ekki fullkomin afsökun. Ef brtt. nefndarinnar verða samþ., eru lagðir á tveir nýir skattar hvort árið eftir annað. Allir vita hvað það þýðir að vega tvisvar í sama knjerunn. Vitaskuld þarf ekki að amast við þessu frá sjónarmiði grasbænda. Þeir hafa sitt á þurru fyrir þessu frv. En það kemur niður á útgerðarmönnunum, þeim mönnum, sem hafa mest í hættunni við að stunda atvinnu sína. Útgerðarmenn hjer á landi, einkum þeir, sem eiga minni bátana, geta ekki fengið báta sína vátrygða nema undir verði, og það með ránskjörum. Þegar svo á stendur, og ekkert er gert af hálfu landsstjórnarinnar eða Alþingis til að koma þessu í viðunanlegt horf, svo að útgerðarmenn leggi ekki árlega mikið af höfuðstól sínum í hættu, þá sje jeg ekki, að ástæða geti verið til að leggja skatt á þessa menn hvað ofan í annað. Það væri því að eins verjandi, að fyrirfram væri víst, að þeir ættu góðar tekjur í vændum. En útlitið er nú eitthvað annað. Það er hvergi nærri víst, að útgerðarmaður, sem að nafninu til hefir 35 þús. kr. í árstekjur, hafi nokkuð aflögu. Í lögunum er ekki hægt að taka tillit til þess, af hvaða höfuðstól þessar 35 þúsundir eru gróði. Sá sanni gróði getur verið tiltölulega mjög lítill, miklu minni en næsta árs tap. Jeg held, að betra sje að fara hægt í sakirnar. Það er betra að sleppa tveim ranglátum en hengja einn rjettlátan. Jeg get ekki greitt brtt. atkvæði. Það er og alveg óvíst, að þær fái byr í háttv. neðri deild.