14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Frsm. meiri hl. (Pjetur Jónsson):

Jeg ætla mjer ekki að fara í neina hólmgöngu í þessu máli. (B. J.: Skoraði ekki neinn á hólm). Jeg skoðaði það ekki heldur svo. En það er ein skýring, sem jeg vildi gefa á till. meiri hl. því að þrátt fyrir þá áskorun, sem hæstv. fjármálaráðherra bar fram, get jeg þó hugsað mjer, að þessar till. meiri hl. verði samþ., og þá finst mjer áríðandi, að þær verði ekki misskildar, hvorki af hæstv. stjórn eða háttv. deild.

Jeg hefi orðið var við ýmiskonar misskilning, bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og svo þm., og þessi misskilningur hefir meðal annars verið sá, að dýrtíðarhjálpin, eftir þessum till. okkar, sje minni en eftir stjórnarfrv. Í stjórnarfrv. er bæjar- og sveitarstjórnum heimilað að nota til hjálpar bágstöddum alt að 15 kr. á hvern mann; þar af á landssjóður að borga 1/3, eða 5 kr. Raunar verður að skilja þetta svo, að þetta 15 kr. takmark sje hámark þess, sem sveitar- eða bæjarstjórn má verja til dýrtíðarhjálpar, hversu mikil sem neyðin er.

En eftir till. nefndarinnar er annað uppi á teningnum. Þar er gengið út frá, að bæjar- og sveitarstjórnir hafi heimild til að leggja fram hjálpina, hvort heldur með styrk úr landssjóði eða án hans. Í 2. gr. er komist svo að orði:

„Af láni því, er 1. gr. ræðir um, heimilast landsstjórninni að veita bæjarfjelögum og sveitarfjelögum dýrtíðarlán, þar sem veruleg neyð er fyrir höndum. En það er veruleg neyð, ef bæjar- eða sveitarfjelagið getur eigi með eigin framlögum, nje með lántöku af eigin ramleik, hjá bönkum eða öðrum lánsstofnunum, forðað frá yfirvofandi hungri og harðrjetti“.

Hjer er gert ráð fyrir, að hvert sveitarfjelag og bæjarfjelag, þar sem ástæða er til að hjálpa, leggi fram krafta sína af sjálfsdáðum og til hins ítrasta, áður en það notar heimildina til að snúa sjer til landssjóðs. Þess vegna eru það ekki einar 10 kr., sem sveitarfjelagið leggur til af eigin ramleik, heldur miklu meira, þar sem er allur kraftur þess og geta. En þá fyrst kemur til að veita lánið úr landssjóði, er sveitarfjelagið hefir gert alt, sem það gat, og þá fyrst kemur þessi 20 kr. hjálp til hvers íbúa. Þessar brtt. liggja því, eins og hæstv. fjármálaráðherra og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tóku fram, „í öðru plani“ heldur en stjórnarfrv., því að þar er gert ráð fyrir miklu stórfeldari hjálp heldur en í stjórnarfrv. Jeg tók þetta fram til þess, að þessi lánsheimild skyldi ekki verða rangskilin. (Atvinnumálaráðherra: Jeg hygg, að lántaka til dýrtíðarhjálpar sje alls ekki útilokuð eftir stjórnarfrv.). Auðvitað er lántaka hjá bönkum ekki útilokuð, en þar er ekki gert ráð fyrir, að stjórninni heimilist að lána sveitarfjelögum.

Auk þess er í till. meiri hl. miklu meiri viðbúnaður og fyrirhyggja heldur en í frv. stjórnarinnar. Sama misskilnings gætti einnig í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hann vísar á bankana og segir, að þeir eigi að lána, en alls ekki stjórnin, en hann hefir ekki gætt að því, sem gert er ráð fyrir í till. nefndarinnar, að áður en sveitarstjórnir leita til landsstjórnarinnar hafi þær leitað til bankanna og fengið þar þau lán, sem um getur verið að ræða. Annars hefir háttv. 1. þm. G. K. (B. K.) skýrt þetta svo vel, að það ættu allir að skilja. Bankarnir hafa nóg með sitt fje að gera nú í dýrtíðinni til atvinnuveganna, sem þeir styrkja og verða að styrkja, t. d. eins og sjávarútveg og verslun, og býst jeg við, að þessir atvinnuvegir verði að sitja fyrir því fje, sem handbært er, en lítið verði eftir til að lána bæjar- og sveitarfjelögum. Þá er það líka annað, sem kemur til greina í þessu máli, að bankarnir, eftir eðli sínu, hljóta að heimta þá tryggingu fyrir lánum sínum, sem litlar líkur eru til að sveitarfjelög, sem komin eru í ítrustu neyð, geti sett. Jeg vona nú, að menn verði sjóngleggri á skoðun nefndarinnar eftir en áður og skilji, hvað hún er að fara. Hæstv. fjármálaráðherra talaði með miklum fjálgleik um hjálp í vandræðum og vitnaði til annara þjóða um það, hvað þær veittu mikla hjálp, rjett eins og stjórnarfrv. hefði í sjer fólgna einhverja stórkostlega hjálp, sem meiri hl. bjargráðanefndar vildi fyrirbyggja. Þetta er sami misskilningurinn, aftur genginn og marghrakinn.