24.06.1918
Neðri deild: 54. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Ekki er þörf að fjölyrða um frv. þetta, eins og það nú liggur fyrir. Það er komið aftur frá háttv. Ed., og hefir þar tekið örlitlum breytingum. Sú breyting, sem Ed. hefir gert, er í því fólgin, að tekjuhámarkið, sem skatt skal af greiða eftir lögum þessum, er fært niður úr 50 þús. og niður í 35 þús. Skattprocentan, sem háttv. Ed. hefir samþ. að greiða skuli af tekjum frá 35 þús. til 50 þús., er þessi: Af tekjum frá 35 þús. að 40 þús. kr. 3½%, af 40 þús. að 45 þús. kr. 4%, og af 45 þús. að 50 þús. kr. 4½%. Þessi skattprocenta er í samræmi við skatthundraðsgjaldið að öðru leyti.

Fjárhagsnefndin hefir athugað þessar breytingar, og hefir hún fallist á þær. Einn nefndarmanna hefir skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og býst jeg við, að hann geri grein fyrir, í hverju sá fyrirvari sje fólginn. Jeg hefi því ekki annars að óska, fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, en að háttv. deild samþykki frv. eins og það nú er.