18.04.1918
Efri deild: 4. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

2. mál, ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Um þetta frv. er hið sama að segja og hitt, að það er öryggisráðstöfun út af Norðurálfuófriðnum.

Eins og kunnugt er, hafa skip landsins bæði strandað og verið skotin niður, og þótt landsstjórninni hafi hingað til tekist að draga nauðsynjavörur að landinu, með aðstoð Eimskipafjelagsins, þótti henni þó vissara að gera þessar öryggisráðstafanir, sem hún gæti þá gripið til, ef á lægi.

Vil jeg svo leggja til, að farið verði eins með þetta frv. og hitt, að því verði vísað til 2. umr., en henni frestað uns bjargráðanefndin hefir verið kosin.