02.05.1918
Efri deild: 11. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

2. mál, ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Það stendur í nefndarálitinu, að jeg sje framsögumaður, og vil jeg því standa upp til þess að kannast við undirskrift okkar nefndarmanna, þótt ekki sje ástæða til að ræða mál þetta frekar.

Eins og nál. ber með sjer, þótti nefndinni það eðlilegt, að hæstv. stjórn hafi heimild þá, sem hjer um ræðir, en um leið var haft orð á því í nefndinni, að þessa væri vænst, að landsstjórnin viðhefði jafnan alla varkárni í því að beita henni, t. d. að breyta áætlun skipa, sem hafa ákveðið verkefni, svo sem flóabátar, sem ganga milli vissra hafna. Það getur að sjálfsögðu ekki komið til mála, að slík skip verði tekin til notkunar á öðrum svæðum, nema brýn nauðsyn krefji.

Vil jeg svo leyfa mjer að leggja það til, að málinu verði vísað til 3. umr.