08.05.1918
Neðri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get yfir höfuð að tala tekið í sama strenginn og háttv. nefnd að því leyti, að jeg get vel sætt mig við, að frv. þetta sje samþ. með þessum breytingum. Það er sjálfsagt, eins og háttv. frsm. (E. A.) sagði, að þörf er dálítilla frekari formbreytinga á frv., og enn fremur geri jeg ráð fyrir, að það yrði líka að vera skilyrði fyrir því, að frv. yrði samþ. endanlega í þinginu, eða þessari háttv. deild, að yfirlýsing komi um það frá hreppsnefnd Siglufjarðar, að hún geri sig ánægða með þetta, því að náttúrlega væri það ekki rjett af þinginu að samþ. þetta annars. En annars býst jeg við, að háttv. flutningsmenn sjeu þegar búnir að fullvissa sig um vilja Siglfirðinga í þessu efni. Þegar þessi yfirlýsing er fengin, get jeg ekki sjeð neina sanngirni í að neita Siglfirðingum um þetta. Það kostar svo lítið. Jeg býst við, að lögreglueftirlitið yrði hvort sem er framvegis dýrara en nú. Frá þessum 2.000 kr. launum, sem gert er ráð fyrir í frv. að landssjóður greiði, má draga það, sem hann hefir undanfarið veitt til lögreglueftirlitsins og vera mun 1.000 kr., enn fremur hreppstjóralaunin, sem munu vera 2— 300 kr. Svo að þetta yrði þá ekki nema í mesta lagi 800 kr. aukinn kostnaður fyrir landið. Hitt kosta hjeraðsbúar sjálfir, og þar sem þeir vilja svo mikið á sig leggja, þá virðist mjer ómögulegt að neita beiðni þeirra í þessu formi.

Annars hefir nefndin tekið svo skýra afstöðu, að jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í málið. Breytingin er nokkur á starfi bæjarfógeta á Akureyri og sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, en á kjörum hans svo lítil, að varla er ástæða til að nefna það.

Jeg vil því fyrir mitt leyti mæla með því, að brtt. verði samþ. og frv. gangi svo breytt til 3. umr., en sjálfsagt er rjett að taka það ekki fyrir til 3. umr. fyr en fengin er yfirlýsing sú, er jeg nefndi.