17.05.1918
Efri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

14. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Framsm, (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og nál. á þgskj. ber með sjer, leyfir allsherjarnefndin sjer, eftir atvikum, að ráða háttv. deild til þess að samþykkja frv. það, sem hjer liggur fyrir, á þgskj. 122, óbreytt.

Þetta er þó ekki af því, að nefndin sje alls kostar ánægð með frv. eins og það liggur fyrir, og ef sjerstakar ástæður væru ekki fyrir hendi, mundi hún hafa komið fram með brtt. við það.

Eins og kunnugt er, fóru háttv. þingmenn Eyf. fram á það, að öllu sambandi, öðru en kjördæmissambandi, Siglufjarðar og Eyjafjarðarsýslu væri slitið og Siglufjörður gerður að sjerstöku lögsagnarumdæmi með kaupstaðarrjettindum, og báru þeir fram á þinginu frv. (á þgskj. 14), sem sniðið var algerlega eftir Hafnarfjarðarlögunum. Átti þar að vera bæjarfógeti með 2.000 kr. launum, er hefði á hendi öll hin sömu störf og bæjarfógetar í hinum kaupstöðunum, væri sjálfkjörinn oddviti bæjarstjórnar og hefði atkvæðisrjett á fundum hennar.

Á þessa kröfu háttv. þingmanna Eyf. gat allsherjarnefnd háttv. Nd. ekki fallist, af ástæðum þeim, sem teknar eru fram í nál. hennar, á þgskj. 37, sem jeg vænti að háttv. þm. hafi kynt sjer.

Komu flutningsmenn frv. þá fram með brtt. við það, og var það loks samþykt af háttv. Nd. eins og það nú liggur fyrir.

En aðalbreytingin er sú, að Siglufjörður eftir því verður ekki sjerstakt lögsagnarumdæmi, nema í almennum lögreglumálum, og í stað bæjarfógeta kemur þar lögreglustjóri, skipaður af dómsmálaráðherra og með sömu launum og bæjarfógetanum voru ætluð, er hafi á hendi stjórn kaupstaðarmálefnanna, dómstjórn í almennum lögreglumálum, lögreglustjórn, gjaldheimtu á skipagjöldum fyrir sýslumanninn í Eyjafjarðarsýslu og önnur störf, er hreppstjórum eru falin, alt hið síðasttalda gegn lögákveðinni sjerþóknun.

Nefndinni virtist nú, að eins vel eða betur hefði farið á því að samþykkja nú þegar fullkomin bæjarstjórnarlög fyrir Siglufjörð og setja í þau bráðabirgða ákvæði þess efnis, að þau kæmu ekki til framkvæmda, nema að því er það snertir, sem fyrir er mælt í þessu frv., fyr en við næstu sýslumannsskifti í Eyjafjarðarsýslu.

Eins hefði nefndin talið það rjettara að sníða lögin fremur eftir bæjarstjórnarlögum Ísafjarðar og Akureyrar en Hafnarfjarðar, sem eru eldri og frábrugðin hinum, t. d. í þeim ákvæðum, sem gilda um kosningarrjett og kjörgengi. En eftir þessu frv. fer í þeim efnum eftir lögum nr. 49, frá 30. júlí 1909.

Atvik þau, er liggja að því, að nefndin samt sem áður ræður til þess, að frv. verði samþykt óbreytt, eru þau, að 20. þ. m. eru liðin full 100 ár síðan Siglufjörður varð löggiltur verslunarstaður, og er þegar mikill undirbúningur hafður til þess að minnast þessa merkisviðburðar með hátíðahaldi á Siglufirði.

Þykir nefndinni því vel við eigandi og rjett, að Alþingi gefí verslunarstaðnum bæjarrjettindi í afmælisgjöf, og leyfi jeg mjer að vænta þess, að háttv. deild verði nefndinni sammála í því efni og hafi samþykt frumv. til fulls fyrir 20. þ. m.

En þá getur ekki verið um neinar breytingar á því að ræða.

En lögunum má breyta hve nær sem þurfa þykir, og það er trúa mín, að þess verði ekki langt að biða.

Vil jeg svo leggja til, fyrir hönd nefndarinnar, að frumv. verði samþykt óbreytt.