23.04.1918
Neðri deild: 8. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

16. mál, mótak

Pjetur Ottesen:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls um þetta frv. nú, ef því hefði verið vísað til allsherjarnefndar, því að þar hefði mjer gefist gott tækifæri til að gera þær athugasemdir við það, er mjer þykir við þurfa, en þar sem komið hefir fram till. um að vísa því til bjargráðanefndar, og þar af leiðandi óvíst í hverja nefnd það fer, þá vil jeg ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um frv., því að mjer virðist það, eins og það liggur fyrir, allathugavert.

Það er engum vafa undirorpið, að með því er gengið meir á eigna- og umráðarjett manna en nokkur dæmi eru áður til.

Einkum og sjer í lagi eru sumar þær jarðir, sem eitthvert móland hafa og liggja nærri kauptúnum og sjávarþorpum, ofurseldar hættu og jafnvel eyðileggingu af jarðraski og átroðningi af mótekju eftir þessu frv.

Eins og kunnugt er, eru mólögin mjög misjöfn að þykt og gæðum. Eins er ýms önnur aðstaða til móuppfærslu mjög mismunandi.

Sumstaðar er mólandið þurt, og á þurlendinu er mórinn æfinlega miklu harðari og betri. Á öðrum stöðum eru mjög miklir örðugleikar á því að ná mónum úr jörðinni sökum vatnsaga, og á slíkum stöðum er venjulega mjög slæm aðstaða með að þurka móinn. Þar sem svo stæði nú á nærri kauptúni eða sjávarþorpi, að á einni jörðinni væri öðrum fremur sjerlega gott mólag í jörðu, þá er svo sem sýnt, hver forlög slíkrar jarðar gætu orðið eftir þessu frv. Menn mundu eflaust heimta það hópum saman að taka móinn þar upp, sem best væri mólandið, og þá alveg eins þótt það væri í túni eða engjum, og veslings ábúandinn stæði alveg varnarlaus uppi og gæti ekkert sagt. Hann er skyldur til að láta mólandið af hendi eftir frv.

Með þessu móti gæti það hæglega komið fyrir, að alt móland á slíkri jörð yrði rifið og tætt í sundur á örstuttum tíma, svo að þar væri ekki eftir nokkur köggull í jörðu.

Afleiðingin yrði auðvitað sú, að jörðin yrði óbyggileg yfir lengri tíma, og eigandinn og notandinn, ef það væri þá ekki sami maðurinn, hefðu ekkert fyrir öll spjöllin nema mótollana.

Með frv. þessu á að upphefja og ónýta samninga milli leiguliða og jarðeiganda og einnig ábúðarlögin frá 1884 eða þá grein þeirra, sem hljóðar um skyldur leiguliða að því er landsnytjar og hlunnindi snertir.

Í þessu frv. eru sem sje engin ákvæði um það, hvernig gengið sje frá mógröfum að aflokinni móuppfærslu. Um þetta getur landeigandi ekkert sagt eftir frv.; hann verður nauðugur viljugur að láta mólandið af hendi til hvers sem vera skal, og að því er sjeð verður engin skilyrði sett. Hann á það alt undir dánumensku þeirra, sem móinn taka upp, hvernig þeir skilja við grafirnar.

Það er annars athuga- og íhugunarvert, hvernig gengið hefir verið frá mógröfunum alt til þessa. Lengi vel hugsuðu menn ekki einu sinni um að fella grafarbakkana eða fleygja ruðningnum ofan í grafirnar, og gína þær þannig við mönnum og skepnum. Slíkar grafir voru auðvitað verstu drápspyttir.

Þetta hefir að vísu breyst svo á síðustu tímum, að menn hafa gengið svo frá gröfunum, að þær væru ekki bráðhættulegar skepnum, en víðast hvar hefir það ekki þokast lengra í umbótaáttina.

Það er sorglegt til þess að vita, að slíkur viðskilnaður á mólandi skuli eiga sjer stað, í stað þess að sljetta yfir grafirnar jafnóðum og upp er tekið, og breyta mólandinu þannig jafnóðum í bestu slægjulönd, því að grafirnar gróa mjög fljótt upp, ef þannig er að farið, þó að ekki sje tyrft yfir sárið með grasrótinni, sem vitanlega er best og kemur fyrst að notum.

Það er annars merkilegt, hve hljótt hefir verið um þessar sjálfsögðu jarðabætur í ræðu og riti og það á þessum framfaratímum.

Það er næsta merkilegt, að Búnaðarfjelag Íslands, sem annars hefir ráðunauta úti um allar jarðir, skuli ekki hafa látið mál þetta neitt verulega til sín taka.

Það mun að vísu vera einhver lagastafur til fyrir því, að hreppar, með samþykki sýslufjelaga, geti gert samþyktir um þessi efni, en það er hins vegar mjög vafasamt, hvort sveitarstjórnarlögin heimila, að hægt sje að koma við sektarákvæðum í slíkum samþyktum, eða rjettara sagt, hvort hægt sje að beita þeim, ef með þyrfti. En slík ákvæði væru nauðsynleg, svo að engum á samþyktarsvæðinu gæti haldist það uppi að skerast úr leik.

Sumstaðar gæti t. d. staðið svo á, að hægt væri að hafa samvinnu um að ræsa fram og þurka mólöndin.

Svo að jeg snúi mjer aftur að frv., þá get jeg ekki sjeð, að það geti komið til nokkurra mála að samþykkja það, eins og það liggur fyrir að minsta kosti.

Jeg er heldur alls ekki svo hræddur um það, að það sje svo mikil hætta á því, að menn fái ekki, nú sem undanfarið, með frjálsu samkomulagi að taka upp mó þar, sem móland er til og landeigendur geta mist það.

Þá er hin hættan, sem á að útiloka með frv., að menn fari að okra á mótekjunni. Þetta yrði kann ske hugsanlegt, en hitt er ekki nema eðlilegt, að mór stígi nokkuð í verði eftir því, sem jarðeignir í landinu hækka. En þá er verðlagsnefndin með hámarksverðsbrandinn reiddan. Ekki svo að skilja, að jeg álíti afskifti hennar af landafurðunum neina fyrirmynd, síður en svo, en þarna getur hún kann ske notið sín.

Þó að jeg álíti frv., eins og það er, alls óhafandi, og telji ekki í rauninni neina þörf á sjerstökum lögum í þá átt, sem frv. stefnir, þá vil jeg ekki leggjast á móti því, að málið fari í nefnd, því að jeg veit, að hinn háttv. flm. þessa máls (M. G.) er svo sanngjarn maður, að hann sje fús til nauðsynlegra breytinga á frv. Jeg vildi óska þess, að sú nefnd, sem fær mál þetta til meðferðar, vildi athuga sveitarstjórnarlögin í sambandi við hjeraðasamþyktirnar, sem jeg mintist á áðan, og það mál yfir höfuð.

Mjer er það mjög mikið áhugamál, að þetta atriði í ræktun landsins yrði tekið til rækilegrar yfirvegunar, og jeg heiti á alla góða menn að styðja að því, að hrinda því máli fram til sigurs.