10.05.1918
Neðri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

16. mál, mótak

Einar Arnórsson:

Það var að eins lítils háttar athugasemd, sem jeg vildi gera við ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann virtist gera ráð fyrir, að úrlausn um þörf á mótaki gæti heyrt undir úrskurð dómstólanna. En hvar sem um lögnám er að tefla heyrir ekki þörfin undir úrskurðarvald dómstólanna, heldur úrskurðar löggjafarvaldið alment um hana, þegar það setur lögnámsheimildin. Hjer verður úrskurðarvaldið um þörfina í hverju einstöku tilfelli að heyra undir hreppsnefnd eða bæjarstjórn. Dómstólaleiðin um það atriði er ófær. Eða hvernig ætti t. d. yfirdómur eða hæstirjettur að geta gert sjer grein fyrir þörf háttv. 1. þm. S. M. (Sv. Ó.) á mólandi í nágrannahreppi sínum?

Hitt er annað mál, hvort hægt væri að finna æðra yfirvald, sem dæmdi um slík mál sem þessi, en það hlyti þá líka að hafa aukinn kostnað í för með sjer.

En það, sem vakti fyrir nefndinni, er hún lagði til, að áliti hreppsnefndar og bæjarstjórnar yrði ekki áfrýjað, var, að ef öðruvísi hefði verið fyrir mælt og leyft hefði verið að áfrýja, þá hefði það tekið svo langan tíma, að allar líkur væru til, að enginn úrskurður hefði fengist um málið á því sumri, og hefði því ef til vill ekkert orðið úr mótaki það árið.

Viðvíkjandi aths. háttv. þm. Stranda. (M. P.), þá er það rjett, að í einstöku tilfellum getur verið mjög óheppilegt að geta ekki farið út fyrir hreppinn, þótt móland sje þar til. Og nefndin gæti tekið til athugunar þangað til við 3. umr., hvort ekki væri hægt að veita undanþágu undan þessari reglu, þar sem sjerstaklega stæði á.

Sömuleiðis mundi nefndin taka með þökkum, ef einhver gæti bent á annað og heppilegra úrskurðarvald heldur en hreppsnefnd og bæjarstjórn.