10.05.1918
Neðri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

16. mál, mótak

Björn R. Stefánsson:

Það var út af 2. brtt. við 3. gr. á þgskj. 65, að jeg vildi gera örstutta fyrirspurn. Jeg er sem sje í vafa um, hvort með orðalaginu geti ekki farið svo, að gengið sje á rjett leiguliða, þann sem nú eiga þeir, því að í ábúðarlögunum frá 1884, í 13. gr., stendur, að leiguliði megi ekki lána landsnytjar nema með leyfi landsdrottins, nema því að eins, að aðrar landsnytjar komi í staðinn. Þetta skil jeg svo, að leiguliða sje frjálst að lána landsnytjar gegn öðrum landsnytjum, án þess að leita til þess samþykkis landsdrottins, og að hann einn eigi að njóta þeirra nytja, sem á móti koma, hvort heldur er engi, beit eða annað þess háttar, sje að eins í öðrum landsnytjum goldið.

Brtt. finst mjer liggja næst að skilja svo, að gjaldi, sem komi fyrir mótak, skuli skift milli leiguliða og landsdrottins eftir mati óvilhallra manna, í hverju sem goldið er. En ef nú heyskapur, beit eða aðrar landsnytjar koma fyrir mótakið í jörð leiguliða, þá finst mjer, að honum beri landsnytjar allar, eftir 13. gr. í ábúðárlögunum frá 1884, en með þessu ákvæði brtt., að gjaldið skuli skiftast milli leiguliða og landeiganda, finst mjer hinum fyrnefnda vera gerður órjettur, eins og jeg hefi áður tekið fram, og á þann rjett gengið, sem hann nú á að lögum.

Jeg vildi því beina því til háttv. nefndar, hvort henni fyndist ekki rjettara að bæta orðunum „sje í öðru goldið en landsnytjum“ inn í 2. gr. brtt. á eftir orðunum „og skiftist gjaldið þá“.

Þá verð jeg og að segja, að jeg kann ekki við orðalagið síðast, þar sem tekið er fram, að ganga skuli svo frá mógröfum, að skepnum stafi ekki „veruleg“ hætta af. Mjer finst, að það sje sjálfsögð skylda allra að ganga svo frá mógröfum, að þær sjeu ekki eingöngu hættulausar fyrir skepnur, heldur stafi beinlínis engin hætta af þeim fyrir menn heldur. Þess vegna ætti orðið „verulega“ .að falla burt, og áskilja það berum orðum, að svo skuli frá mógröfum ganga, að ekki standi hætta af. Mjer finst það vera sjálfsögð krafa.

Við 1. gr. brtt. hafa þegar verið gerðar athugasemdir, svo að jeg get leitt hana hjá mjer, og þarf jeg því ekki að taka annað fram.