10.05.1918
Neðri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

16. mál, mótak

Magnús Pjetursson:

Jeg hefi ekki miklu að bæta við það, sem sagt hefir verið um þetta mál. Þó vildi jeg segja svolítið út af orðum háttv. framsm. (M. G.) um mínar aths. Jeg ætla að skýra þetta dálítið nánar. Það er ekki nægilegt, þó að það standi í greininni: „meðan nægilegt mótak er í hreppnum“, því að það getur verið full ástæða til að leita mótaks utan hrepps, þó að nægilegt mótak sje einhversstaðar í hreppnum, Það getur hagað svo til, að 4—5 tíma lestagangur sje til mótaks í hreppnum og flytja verði allan móinn í böggum, en í öðrum hreppi sje mótak, sem miklu hægra er að ná til. Því gæti svo farið, að menn yrðu fegnir að sæta afarkostum með mótak í öðrum hreppum, heldur en að nota það mótak, sem kostur er á innan hrepps, vegna þess að aðdrættir á innanhreppsmótakinu yrðu svo dýrir. Jeg bendi á þetta einnig í sambandi við 3. gr., sem sett er til þess að eigendur mólands skuli ekki geta sett mönnum afarkosti. En utanhreppsbúar geta ekki komist undir þessi ákvæði, af því að eigendur mólandsins hafa svo mikil völd gagnvart þeim, að þeir geta neitað þeim um mótak og því neytt þá til að sæta afarkostum.