10.05.1918
Neðri deild: 19. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

16. mál, mótak

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð til svars ræðu háttv. 2. þm. S. M. (B. St.). Það er misskilningur hjá honum, að brtt. nefndarinnar brjóti í bág við rjett leiguliða eftir ábúðarlögunum, því að ef leiguliði fær jarðarafnot í skiftum fyrir mótak, er auðsætt, að jarðareigandi á ekkert af gjaldinu fyrir mótakið. Og ef kvaddir menn ættu að gera um slíkt, mundu slíkir matsmenn strax sjá, að svo væri, og mundu kveða svo á, að leiguliði fengi alt gjaldið. Slík tilfelli sem þetta koma sem sje ekkert þessu frv. við, því að það tekur alls engan rjett af leiguliða, en leggur að eins þær skyldur á hann að þola, með ákveðnum skilyrðum, að mór sje tekinn upp í landi hans gegn gjaldi.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefi jeg þegar svarað.