30.05.1918
Efri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

16. mál, mótak

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf eigi miklu við að bæta nefndarálitið, sem er á þgskj. 238. Brtt. við 1. gr. eru gerðar samkvæmt því, sem kom fram við 1. umr., að frv. gengi fullnærri eignarrjetti manna.

Jeg skal að eins geta þess, að persónulega er mjer ekki um ákvæði 3. gr., um gjald fyrir mótak. Er þar gjaldið ákveðið 10% um fram það gjald, sem tekið var fyrir mótak á sama stað árið 1917.

Þetta gæti valdið töluverðu misrjetti, því að á síðastliðnu ári var gjald fyrir mótak mjög mishátt. Sumir teygðu það eins langt og unt var, aðrir seldu við hæfilegu verði, en enn aðrir langt undir sannvirði, fyrir vináttu sakir eða vensla. En þar sem frv. þetta er nokkurskonar varaskeifa, leit nefndin svo á, að ekki tæki því að vera að raska þessu.

2. brtt., við 3. grein, er fram komin sökum þess, að svo leit út, sem kveða ætti sjerstaka menn til þess að skifta mógjaldi milli lánardrottins og leiguliða. Leit nefndin svo á, að það væri sjálfsagt, að sömu mennirnir, sem mætu gjald fyrir mótak, gerðu það líka, og vildi, að það kæmi ljóst fram.

Skal jeg svo ekki pína langþreytta háttv. deildarmenn með lengri ræðu um þetta mál.