17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Framsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um brtt. þær, sem hjer liggja fyrir. Jeg mun við atkvæðagreiðsluna sýna, hvernig jeg lít á þær.

Jeg vænti þess, að háttv. þm. ljái viðaukatillögu minni á þgsk. 134 liðsinni sitt, því að jeg hygg, að hún muni verða að talsverðu gagni fyrir það málefni, sem hún vinnur að.

Háttv. 2. þm. S.-M. (B. Stj drap á það, viðvíkjandi fjárframlögum úr landssjóði, að hann teldi það helstu skyldu hvers þm. að forða landssjóði sem mest frá fjárútlátum. Þetta er að nokkru leyti rjett, en þó má þessi skylda ekki vera svo rík, að hún verði yfirsterkari þeirri skyldu, sem ætíð á að sitja í fyrirrúmi, sem sje þeirri, að hjálpa þeim, sem bágstaddir eru, því að það er ekki eingöngu siðferðileg skylda, heldur og lagaleg skylda þingsins. Jeg veit líka, að háttv. þm. (B. St.) hefir haft þetta í huga, þegar hann sagði þessi orð, því að það hefir hann einmitt sýnt með till. sínum um þetta mál.

Annað atriði drap þessi sami háttv. þm. (B. St.) á, viðvíkjandi stríðsgróðanum, sem jeg vildi minnast á með örfáum orðum. Hann sagði, að ekki væri nema sjálfsagt að taka af honum til þeirra útgjalda, sem nauðsynleg væru til þess að bjarga alþýðu. En vel má vera, að stríðsgróðinn sje ekki á það mörgum höndum, að til hans náist, að hann hrökki nema til þeirra þarfa, sem hvert bæjar- eða sveitarfjelag hefir. Þess ber líka að gæta, að þessir stórgróðamenn hljóta að bera þyngstu útgjaldabyrði þess bæjar- eða sveitarfjelags, sem þeir teljast til. Svo að það eru vitanlega takmörk fyrir því, hve mikil gjöld þeir geta borið.

Menn geta farið nærri um það, hvernig jeg muni lita á brtt. frá háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), á þgskj. 150. En það verð jeg að segja háttv. þm. (E. Árna.), að jeg hefði kunnað betur við, að hann hefði sparað sjer þessar brtt. og greitt hreint og beint atkv. á móti frv. stjórnarinnar; það hefði verið mikið betra gagnvart okkur, sem erum á öndverðum meiði, heldur en að koma nú með till., er nemur burt það, sem mestu skiftir í stjórnarfrv., svo að ekkert verði eftir nema fánýtt pappírsgagn.

Síðasti liðurinn í brtt. er ekki eins heppilegur að mínu áliti eins og háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) gerir sjer í hugarlund. Jeg var að vísu fylgjandi því, að landssjóður lánaði bæjar- og sveitarfjelögum fje, en þessi heimild, sem þarna er farið fram á, er miklu athugaverðari, því að það er svo miklu verra að hafa eftirlit með því, hve nær væri nauðsyn að lána vörur heldur en peninga. Það er hætt við því, ef þetta verður samþ., að menn muni ekki leggja eins mikið kapp á og ella að birgja sig upp með nauðsynjar, og jeg spái því, að landsverslunin mundi fá að kenna illilega á þessu ákvæði, ef það yrði að lögum, því að það mundi reynast erfitt að hamla á móti þessum vörulánum.

Háttv. þm. (E. Árna.) gat þess í ræðu sinni, að jeg færi nokkuð í sömu átt og hann í minni till., þar sem jeg fer fram á, að landsstjórninni heimilist að lána olíu og salt. En þess ber að gæta, eins og tekið er fram, að þetta lán skuli að eins vera til skamms tíma, og svo er líka öðru máli að gegna um olíu og salt heldur en um matvörur. Það er ekki ætlast til þess að lána þessar vörur nema brýn nauðsyn beri til og að þær verði fljótlega greiddar. Sjávarútvegi er líka þannig varið, að ætla má, að honum reyndist vel mögulegt að greiða skjótlega slíkan stuðning.

Það er hálfleiðinlegt, að menn skuli hjer á þingi draga sem mest úr hjálpinni til kaupstaðarbúa, eins og nú er ástatt. Því að það þýðir ekki að dylja það, að þeir hafa þó orðið verst úti í dýrtíðinni, og atvinnuvegur þeirra hefir orðið fyrir langmestu tjóni. Jeg býst við því, að mjer verði svarað því til, að í kauptúnunum búi efnamestu menn þessarar þjóðar, og að þeir sjeu fullfærir um að bera þá sveitarbyrði, sem þessir tímar skapa. En menn verða líka að muna eftir því, að þau tekjuaukafrv., sem nú liggja fyrir þinginu til handa landssjóði, koma aðallega niður á kauptúnabúum. Menn ættu að geta látið sjer nægja með að taka frá þeim fje í landssjóð, en ekki um leið að reyna að finna allar krókaleiðir til þess að forða því, að nokkrir molar fjellu til þeirra af borði landssjóðs.