08.05.1918
Neðri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Hákon Kristófersson:

Háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) hefir tekið margt af því fram f ræðu sinni, sem jeg vildi sagt hafa, þrátt fyrir það, að mjer virðist hann taka aftur fyrri hluta ræðunnar með seinni hlutanum; get jeg því verið stuttorður, þar eð skoðanir okkar í aðalatriðunum falla saman.

Það, sem kom mjer til þess að biðja um orðið, var hið einkennilega orðalag á nál.; þar stendur sem sje: „eftir því sem atvik liggja til“. Jeg verð að segja það, að fyrir mig, sem ókunnugan, hefði jeg kunnað því betur, að einhverjar skýringar um þörf á framgangi þessa máls hefðu komið fram í nál., en það síður en að því sje til að dreifa.

Þegar þetta mál kom fyrir háttv. deild, hjelt jeg, að ástæðan til þess, að hlutaðeigandi maður vildi fara úr bankanum, væri heilsulasleiki, og fanst mjer þá ekki mjög óeðlilegt, að þessi ósk kæmi fram, og það gæti til mála komið, að honum væri sýndur einhver sómi fyrir það, að hann hefir margt ár erfiðað, og að mínu viti vel, í bankanum, en um það má auðvitað deila, hve upphæð sú ætti að vera há, er vel sæmandi væri fyrir mann þennan sem viðurkenning fyrir trúlega unnið starf. Beri maður þetta saman við venjuleg eftirlaun embættismanna, þá dylst engum, að upphæð þessi, 4 þús. kr., er hærri en venja er til, borið saman við þjónustuár og launaupphæð. Þó að Tryggva sál. Gunnarssyni væri á gamals aldri veittar 4 þús. kr., þá var það ekki að eins fyrir starf hans í bankanum, heldur sem viðurkenning fyrir vel unnið æfistarf. En síðan frv. kom fram hefi jeg sannfærst um, að orsökin er ekki heilsubrestur hlutaðeigandi manns, og verð jeg þá að segja það, að ef samþykt þessa frv. yrði til þess, að viðkomandi maður færi úr bankanum, þá væri nærri ver farið en heima setið, því að það er atriði, sem ekki verður um deilt, að það er ekki hagur fyrir Landsbankann að missa slíkan starfskraft, sem hjer er um að ræða, og hefir slíka þekkingu á högum manna á öllum sviðum úti um alt land. Jeg verð því að segja það, að hjer verða að vera þvingandi ástæður til þess, að jeg geti samþykt þetta frv., og vildi jeg gjarnan óska, að það kæmi ekki til framkvæmda og að þessi háttv. maður (B. K.) sæti mörg ár í sama virðingarsessi, sem hann nú situr í.

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að hjer í Reykjavík gengur mikið bæjarslúður um þetta mál. Vitanlega má nú tæplega taka mikið mark á slíku, því að hjer er svo mörgu logið. Þess þykist jeg líka vís, að háttv. nefnd byggi ekki álit sitt á hviksögum þeim, er um það ganga, að meðal annars sjeu það meðstjórnendur þessa bankastjóra, er geri honum dvöl hans í bankanum lítt bærilega, sökum samvinnustirðleika þeirra. Hver trúir nú slíku um þá menn, sem hjer er um að ræða og báðir eru þektir að samvinnulipurð?

Jeg verð að lýsa yfir því, að þrátt fyrir hinar hlýju tilfinningar og vinarhug, sem jeg ber til Björns Kristjánssonar, þá virðist mjer mál þetta horfa þannig við, að jeg get ómögulega greitt því atkvæði mitt, enda væri það gagnstætt afstöðu minni til eftirlaunamálsins yfirleitt. Má líka benda á það, að það fer í bág við þá stefnu, sem verið hefir efst á baugi hjá þjóðinni, án þess þó að jeg vilji segja, að hún sje í alla staði rjett, en jeg vil taka undir það hjá háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.), að það væri alveg óverjandi, sem jeg líka þykist viss um, að engum þm. kemur til hugar að neita, ef Björn Sigurðsson bankastjóri, eða aðrir forstjórar bankans, færi frá á næstunni, að ekki væri látið ganga sama yfir hann eða þá eins og þann bankastjóra, sem nú er verið að tryggja eftirlaun. Það væri alveg rangt, meðan ekki er búið að minka eða taka af eftirlaun embættismanna landsins.

Jeg vil svo að endingu geta þess, að mjer finst sem það liggi einhverjar dylgjur í þessum orðum nál.: „eftir því sem atvik liggja til“. Vil jeg því fá að vita, hvað vakað hefir fyrir háttv. nefnd, því að ef þessar dylgjur eru rjettar, þá væri sjálfsagt ekkert að því að koma fram með þessi sanngjörnu atvik í málinu.

Að lokum vil jeg taka það fram, að jeg á viðkomandi manni (B. K.) svo margt gott að þakka, að jeg vil ekki taka höndum saman við suma af þeim mönnum, er fylgja frv., með því að stuðla að framgangi þess, því að jeg veit fyrir víst, að sumir af þeim mönnum, er nú leggja til, að frv. nái fram að ganga, gera það að eins af því, að þeir vilji koma Birni Kristjánssyni úr bankanum.