17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg ætla að vera mjög stuttorður og ekki komast neitt inn á almennar dýrtíðarhugleiðingar, að eins skýra frá afstöðu minni til þeirra brtt., sem fyrir liggja. Fyrst ætla jeg að víkja að brtt. háttv 2. þm. Eyf. (E. Arna.), er heimilar vörulán. Jeg verð að segja það, þótt mjer þyki það leiðinlegt, af því að þessi hv. þm. er venjulega tillögugóður, að mjer þykir hún mjög óheppileg og verð að mæla eindregið á móti henni. Það er að mínu áliti einhver varhugaverðasta tillagan, sem komið hefir fram í dýrtíðarmálunum á þessu þingi. Hún mundi reynast landsversluninni mjög örðug. Lánbeiðnirnar mundu streyma að úr öllum áttum, og yrði þá erfitt að daufheyrast við þeim. Þá sjá menn, hve erfitt yrði að reka verslunina, sjerstaklega ef að því skyldi reka, sem flestir eru nú sammála um, að nauðsyn muni til bera, að reka þurfi landsverslun í enn stærri stíl en hingað til; þá veitir henni ekki af að hafa alt sitt veltufje handbært. Þetta gæti orðið mjög svo hál braut, ef út á hana er haldið. Allir, sem talað hafa, hafa líka tekið í sama strenginn um þessa brtt. Út af því, sem háttv. flutnm. brtt. (E. Árna.) gaf í skyn, að hann mundi verða á móti frv. stjórnarinnar, ef brtt. yrði feld, þá verð jeg að segja það, að það væri mjög óheppilegt, ef frv. fær ekki fram að ganga, eins og málinu nú er komið, því að þá væri ekkert annað að halda sjer við en dýrtíðarlögin frá síðast þingi, og flestir hv. þingdm. munu vera sammála um það, að þau eru ekki góð. En jeg verð að mæla mjög alvarlega á móti því, að þessi brtt. verði samþykt. Sama er að segja um það að nema í burt 2. og 3.gr. frv. Það álít jeg að væri mjög misráðið og gerði frv. lítilsvert.

Um brtt. og ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefi jeg talað við 2. umr. þessamáls og þarf því ekki að dvelja við hana hjer aftur.

Um brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) er það að segja, að þar gæti verið um mjög stór lán að ræða. Stjórninni bárust einmitt mjög stórar fjárbeiðnir á síðastliðnum vetri, til aðstoðar sjávarútvegi á ýmsum stöðum. Það er að vísu vert að gera það, sem unt er, fyrir sjávarútveginn, en þær ráðstafanir verður að gera sjerstaklega, en ekki í þessu frumv.

Þá kem jeg að brtt. þeirra háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Þessi brtt. heldur sjer á þeim grundvelli, sem stjórnin byggir á frv. sitt, að yfirgefa lánabrautina, en veita aftur á móti styrk. Munurinn er að eins sá, að þeir færa hámark styrksins upp í 25 kr. og vilja láta landssjóðstillagið fara hækkandi, eftir því sem sveitarfjelögin leggja meira fram. Hámark þeirrar upphæðar, sem landssjóður gæti komið til með að ieggja fram eftir þessari tillögu, verður um 600.000 krónur. Aftur ef sveitarfjelögin leggja 10 krónur, eins og stjórnarfrv. ætlast til, þá er hámark landssjóðstillagsins 450.000 krónur. Jeg get ekki sett mig beint upp á móti þessari brtt., og mundi vel við una, þó hún væri samþykt.

Þá hefi jeg ekki fleira að segja um brtt., sem fyrir liggja, en leyfi mjer að vænta, að frv. stjórnarinnar megi ganga fram, en brtt. þær, er jeg hefi mótmælt, verði feldar.