29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Eggert Pálsson:

Jeg hefi ásamt þrem báttv. þm. leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 235, þar sem farið er fram á að lækka eftirlaun Björns Kristjánssonar úr 4.000 kr. niður í 2.000 kr. Orsökin er engan veginn sú, að við berum öfund eða óvild til þessa manns, heldur viljum við, að eftirlaununum væri stilt við hóf og að eitthvert samræmi sje í þeim við eftirlaun annara embættismanna. En hvorttveggja virðist vanta í frv. Okkur virðist ekki hófs gætt og hins ekki heldur, að rjett og hæfilegt hlutfall sje á milli þessara eftirlauna og annara embættismanna. Að veita 2/3 sjálfra launanna í eftirlaun er of hátt, sjerstaklega þegar þess er gætt, að starfstíminn er að eins 9 ár. Og þetta verður enn þá meir áberandi, þegar þess er gætt, hve há upphæðin er. 4.000 kr. er eins há upphæð og betri embættismannalaun gerast nú. Ósamræmið er því mjög áberandi. Manninum ber í raun og veru ekki nema 1.400 kr., ef farið væri eftir reglum þeim, sem gilda um eftirlaun embættismanna þessa lands.

Það má ef til vill segja, að hjer hagi svo til, að fordæmi sje um þetta áður, þar sem Tryggva heitnum Gunnarssyni voru veitt eftirlaun jafnhá og hjer er farið fram á. En jeg lít nokkuð öðrum augum á það; jeg lít svo á, sem eftirlaun hans hafi eigi aðallega verið veitt fyrir starfsemi hans fyrir Landsbankann, heldur hafi það verið nokkurskonar heiðurslaun fyrir gjörvalla starfsemi hans í þarfir þjóðarinnar, auk þess sem svo sjerstaklega stóð á með hann, að hann varð að fara frá Landsbankanum í fullu fjöri og fullfær um að starfa fyrir bankann, einungis af pólitískum ástæðum, og því harla ósanngjarnt að láta hann gjalda hinna pólitísku kringumstæðna, er þá voru.

Jeg býst við því, að einhver kunni að segja, að þessi eftirlaun eigi ekki að greiða úr landssjóði; það sje Landsbankinn, sem eigi að greiða þau, og þess vegna þurfi ekki að spara eða fylgja svipaðri reglu og þeirri, sem gildir um eftirlaun úr landssjóði. En jeg tel þetta vera nokkuð hið sama, því að Landsbankinn er eign landsins, og oss ber ekki síður að hugsa um hag hans en landssjóðsins.

Þessi till. hlýtur, ef hún verður samþ., að hafa eftirköst í för með sjer. Þeir bankastjórar Landsbankans, er láta af starfi sínu sakir elli eða heilsubilunar, geta, er þeir biðja um eftirlaun, bent á frv. þetta, og saman borið við það ættu þeir rjett á því að fá svipuð eftirlaun. Og slíkt hið sama gætu aðrir starfsmenn bankans einnig gert.

Við, sem berum fram þessa brtt., erum ekki mótfallnir því, að þessi maður fái hæfileg eftirlaun, saman borið við önnur eftirlaun, og á meðan eftirlaunalögin eru í gildi á annað borð. En við getum ekki verið samþ. því, að hið háa Alþingi fari að rjúka til að láta honum í tje gífurlega há eftirlaun, samtímis og raddir koma fram um afnám eftirlauna alment, og nær samtímis og þingið hefir afnumið eftirlaun hjá sumum embættismönnum, það er að skilja ráðherraeftirlaunin. Mótsögnin, sem hjer á sjer stað, verður enn berlegri, þegar gefnar eru gætur framkomu þingsins í öðrum fjármálum. Þegar þetta sama háa Alþingi er að ræða um laun til starfsmanna landsins, þá eru launin numin svo við neglur sjer, að undan blæðir, og við borð liggur, að jafnvel heil stjett landsins hætti starfi fyrir það. Þótt því háttv. Nd. hafi samþ. þessi 4 þúsund kr., þá er jeg ekki í vafa um, eftir meðferð þeirri að dæma, sem önnur frv. um laun til starfsmanna landsins hafa fengið hjá henni, að ýmsir háttv. þm. þar hafi ekki gert það með góðri samvisku að greiða atkv. með þessari eftirlaunafúlgu.

Háttv. frsm. (Jóh. Jóh.) tók það fram, að ef eftirlaunataki fengi ekki svona há eftirlaun eins og frv. segir, þá mundi hann halda áfram að vera bankastjóri. En jeg fæ ekki skilið, að það væri neitt tjón fyrir Landsbankann eða landið, þótt svo yrði. En ef svo væri, þá væri það sannarlega ekki meðmæli með því að veita þessi eftirlaun svona óvenjulega há. Háttv. frsm. (Jóh. Jóh ) sagði og, að það væri heilsutjón og líftjón fyrir hann að sitja áfram í bankanum, og nefndin segir hið sama í áliti sínu. En þessi ummæli eru með öllu órökstudd, og þeim fylgir ekkert læknisvottorð, sem þó ætti að vera. Annars eru fleiri órökstuddir dómar í nefndarálitinu, t. d. að bankastjórinn sje eignalaus maður. Orsökina til þess segir nefndin vera þá, að hann hafi látið son sinn fá eignir sínar til umráða, en getur þess ekki, hvort það hafi verið fyrir gjald eða ekki neitt. En þótt hann hefði afhent syni sínum eignir sínar án þess, að beint gjald kæmi á móti, þá mætti álíta, að hann gæti stuðst við það í elli sinni. Að minsta kosti lítur almenningur svo á, sem sá sje ekki á hjarni staddur, sem á góð og efnileg börn til að styðjast við í elli sinni.

Jeg vænti, að hæstv. forseti beri till. okkar fyrst upp, þar sem það er lægsta tala, en annars mun jeg að sjálfsögðu beygja mig hvað það snertir fyrir úrskurði hæstv. forseta.