17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Árnason:

Þeir, sem tekið hafa til máls, hafa allir andmælt brtt. mínum, þar á meðal hæstv. fjármálaráðh., sem þó fór um þær hógværum orðum. Hann bjóst við því, að ef brtt. yrðu samþyktar, mundi landsversluninni stafa bætta af því, vegna þess að lánbeiðnir drifu þá að úr öllum áttum.

Þessi sífelda hræðsla stjórnarinnar við lánbeiðnir virðist bera vott um það, að hún vilji hliðra sjer hjá því að leggja dóm á það, hvar neyðin er mest og þörfin brýnust. En jeg sje ekki neina ástæðu til þess að losa hana við þann vanda, tel hann ekki heldur svo ógurlegan, því að sveitarfjelögin munu naumast að nauðsynjalausu sækjast eftir þessum lánum, þar sem þau þurfa strax að borga af þeim 5% ársvexti. Þessi hætta er því ástæðulaus grýla.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að eins vel hefði mátt fella allar greinar frv. eins og að nema í burt 2. og 3. gr. Jeg get þó ekki verið á sama máli um það; því að þótt gengið sje út frá því sem sjálfsögðu, að stjórnin veiti hallærislán, þegar í harðbakka slær og önnur bjargráð eru þrotin, og að til þess þurfi ekki að samþykkja nein dýrtíðarlög, þá fela þó bæði 4. og 6. gr. frv. í sjer alveg ný og mjög mikilsverð ákvæði til dýrtíðarhjálpar.

En fyrst háttv. þm. (Sv. Ó.) lítur svo á, að stjórnin sje skyld að hlaupa undir bagga með lán, þegar neyð ber að dyrum, þá get jeg ekki sjeð neitt hættulegt við það að ákveða, að lánin skuli veitt í nauðsynjavöru.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) kvað svo ramt að orði, að hann taldi brtt. mínar óalandi og óferjandi með öllu. Mig furðar mest á því, að hann skuli ekki geta felt sig við síðari brtt. mína, því að hún fer nákvæmlega í sömu átt og viðaukatill. hans á þgskj. 134. Hann leggur sem sje til, að stjórninni sje veitt heimild til að lána olíu og salt til sjávarútvegarins. En hvers vega þá ekki líka matvöru? Það virðist þó ekki minni ástæða til, ef í verulegar nauðir rekur, að menn geti átt kost á að fá matvæli til að draga fram lifið, heldur en að fá olíu og salt, til að geta stundað atvinnu sína.

Þá kem jeg að því atriði hjá sama háttv. þm. (J. B.), að kaupstaðabúarnir verði fyrir mestu skakkafallinu af dýrtíðinni. Það kann rjett að vera, og dettur mjer síst í hug að vefengja það. En jeg get ekki fallist á, að hjer sje enn þá nein almenn neyð í landi, að minsta kosti ekki meiri en oft hefir verið áður. Jafnvel fyrir nokkrum tugum ára hygg jeg að fult eins mikið hafi sorfið að landsbúum eins og enn gerir. Og þá voru engin dýrtíðarlög. Jeg held að þingið hafi farið of snemma af stað með dýrtíðarráðstafanir sínar. Sönnunin fyrir því er sú, hve óhemju mikið var sótt um dýrtíðarlán í vetur að nauðsynjalausu, einungis af því, að lánskjörin voru svo góð. Það getur verið, að þröngt verði í búi hjá mörgum manninum í sjávarþorpunum, og það er fjarri mjer að ætlast til, að fólk sje látið líða skort. En jeg ætlast til, að sveitarfjelög hjálpi á meðan þau geta, og jafnframt verður fólkið að leggja fram alla þá orku, sem það á til, til þess að komast af; það hefir þessi þjóð orðið að gera á öllum undanförnum tímum. Á síðustu árum hefir fólkið streymt úr sveitunum til gullnámanna í kaupstöðunum, og það er ekki nema eðlilegt, að fólkið streymi þangað, sem gullnámur er að finna. En þessar gullnámur eru oft viðsjárgripir, því að þar er svo margt komið undir hepninni einni. Þessi flutningur úr sveitunum til kaupstaðanna hafði þau áhrif, að búnaðarhættir allir breyttust, framleiðsla á mjólk, skyri og smjöri minkaði, einmitt því bjargræðinu, sem mest og best hefir haldið lífi og þrótti í þjóðinni frá landnámstíð.

Nú standa svo sakir, að ekki lítur út fyrir annað en að grasið verði undir snjónum fyrir fólksleysis sakir, að landsvæði, sem gætu gefið af sjer tífaldan gróða í kartöflum, liggja ónotuð og að mjólkurpeningurinn verði rekinn á fjall. Þetta kalla jeg að taka brauðið frá börnunum og kasta því fyrir hundana. Neyðin, ef um nokkra neyð er að tala nú, heimtar, að allir leggi sitt ítrasta fram og hagi sjer skynsamlega. En hvað sjer maður svo dags daglega hjer? Fólkið stendur hópum saman á strætum og gatnamótunum aðgerðalaust, bíðandi eftir því, sem enginn veit hvað er og aldrei kemur. Og svo þegar vonirnar bregðast, þá á landssjóður að taka við. Fólkið prjedikar vandræði, dýrtíð og óstjórn hvað fyrir öðru, uns alt skynsamlegt vit er flúið á dyr, öll bjargræðisviðleitni steindauð, og ekkert er eftir nema rakalausar ákærur til þeirra manna, sem með stjórnarvöldin fara. Og svo leggja sum blöðin sína fríkirkjulegu blessun, eða rjettara sagt sleggjudóma, yfir alt saman.