12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Bjarni Jónsson:

Þegar mál þetta var hjer áður til umr., bar jeg fram brtt., sem komst ekki að. Jeg vildi fá yfirlýsingu af hálfu flutningsmanna um, hvort bankastjórinn færi frá vegna heilsubrests. Ef heilsubrestur orsakar lausnarbeiðni hans, er jeg frv. fylgjandi, en ella mun jeg eigi greiða því atkv. mitt.

En þó að svo sje ákveðið í frv., að bankastjóranum beri eftirlaun frá 1. júlí, má ekki skilja þetta ákvæði svo, sem honum sje skipað að Segja af sjer þann dag, ef heilsa hans fari t. d. batnandi og hann gæti gegnt starfinu í mörg ár enn. Í ákvæðinu felst að eins þetta, að upp frá þeim degi fær hann eftirlaun, hve nær sem hann segir starfinu lausu. Að minsta kosti fylgir því frá minni hendi sá skilningur.

Jeg býst við að greiða atkv. með þessu frv., eftir það, sem fram kom í Ed. En þar kom það skýrt fram, að bankastjórinn treysti sjer ekki, sökum heilsubrests, að gegna embætti þessu.