12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Sveinn Ólafsson:

Jeg er meðflutningsmaður þessa frv. og finn mjer því skylt að styðja að framgangi þess í þeirri mynd, að það tryggi eftirlaunagreiðsluna.

Jeg vil geta þess, út af orðum háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), að þetta með dagsetninguna 1. júlí lít jeg svo á, að eftir málvenju geti ekki komið til tals, að nokkrum manni sjeu veitt eftirlaun meðan hann gegnir embætti og þiggur embættislaun. Með þessu orðalagi er hann alls ekki skuldbundinn til þess að láta af embættinu 1. júlí, heldur er, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) tók svo ljóst fram, með þessari tímatakmörkun átt við, að frá þeim degi hafi hann tryggingu fyrir eftirlaununum, hve nær sem hann segir af sjer. Það nær engri átt, að bankastjórinn verði sviftur embætti frá 1. júlí, ef þetta verður samþykt og hann segir ekki af sjer.

Að breyta frv. þessu nú að nýju og flækja því á milli deilda, gæti auðveldlega orðið því að falli. Þess vegna mun jeg greiða því atkv. í þessari mynd.