17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Þórarinn Jónsson:

Það er illa gert að teygja tímann, en jeg hefi ekki tekið þátt í umræðum um þetta frv. áður, en sýndi við atkvgr. við 2. umr, að jeg var á móti frv. stjórnarinnar, en hallaðist að tillögum meiri hluta bjargráðanefndar. Jeg vil gera örstutta grein fyrir þessari afstöðu minni, áður en málið fer út úr deildinni. Tilgangi þeim, sem þetta frv. hefir, sem sje þeim, að bjarga eða styrkja þegar á liggur, er ómögulegt að ná með till. stjórnarinnar, en brtt. meiri hluta nefndarinnar voru nær rjettri leið. Mjer er öldungis ómögulegt að fylgja frv. stjórnarinnar, af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst af því, að styrkurinn, sem ætlast er til að sveitarfjelögin verji til bjargráða, er svo lítill, að eins 15 kr. á mann. Í öðru lagi vegna þess, að þegar í neyðina er komið, þá geta þau sveitarfjelög, sem verst eru sett að gjaldþoli, ekki af eigin rammleik lagt fram það, sem til þess þarf að verða styrksins aðnjótandi, og að öllum líkum ekki heldur fengið neitt lán. Aftur á móti þau sveitarfjelög, sem eru svo efnuð, að þau geta lagt fram til bjargráða af sínu eigin fje, fá styrk úr landssjóði. Hin efnaminni, sem komin eru í neyð, standa uppi ráðþrota og hafa enga leið, en þó verður maður að ætla, að það hafi ekki verið tilgangur stjórnarinnar, að þeim, sem bjarga ætti, væri fyrirmunuð öll björg. En lítum nú á þetta, eins og það hefir komið fram hjer í deildinni. Stjórnin hefir margsinnis lýst yfir því, að hún vill ekki fara inn á lánabrautina, og einn bankastjóri hefir tekið það fram í umræðunum, að bankarnir megi ekki lána þegar í neyð er rekið, og það hygg jeg að sje alveg rjett athugað, því að það eru ekki stofnanir, sem hætta vilja fje sínu. Þessi efnaminni sveitarfjelög verða því svo út undan, eins og jeg hefi tekið fram, að þau hafa enga leið, eftir þessu frv., til að bjargast.

Það er hægt að segja, að tilgangurinn sje sá, að fyrirbyggja það, að neyð verði, að tillagið eigi að hjálpa mönnum til þess að afstýra neyðinni fyrirfram. En mjer getur ekki annað en fundist, að eins og frá frv. er gengið, mundi hjálpin koma heldur seint fyrir þá, sem þurfa. Fyrir hina, sem ná henni, er hún til engrar hlítar í þessu efni, því að hvað segir svo þessi 5 kr. styrkur? Það er eins og að gefa krakka fimmeyring.

Í sambandi við þetta skal jeg drepa á eitt dæmi, sem háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) kom með í ræðu sinni við 2. umr. þessa máls og átti að vera til að staðfesta gamla málsháttinn, að betra sje að byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann. Dæmið var eitthvað á þá leið: Ef bóndi á 50 ær, og er að því kominn að eyðileggja þær sökum bjargarskorts, væri þá ekki betra að hjálpa honum til þess að halda lífinu í ánum heldur en að leggja honum fje til framfærslu, þegar ærnar eru allar eyðilagðar. Menn munu væntanlega sjá það, hvernig 5 kr. styrkur á mann á að bjarga frá því að fella 50 ær. Gerum ráð fyrir, að 6 manns sje í heimili. Þá fær heimilið ekki nema 30 kr. styrk frá landssjóði, en framlag frá sveitinni fær það hvort sem er; og til þess að fá þessa upphæð þarf nú ekki annað en að lóga einni ánni. Skyldi hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) takast að telja nokkrum lifandi manni trú um það, að þetta fyrirbygði eyðileggingu á 50 ám.

Og hvað er það nú, sem maðurinn getur fengið til viðurværis sjer fyrir einar 5 kr. ? Hann getur keypt fyrir þær 51/2 kg. af haframjeli. Á því gæti hann ef til vill dregið fram lífið í hálfan mánuð með öðrum fæðutegundum. Þetta á að bjarga þegar komið er í neyð!

Öðru máli er að gegna með lán þau, sem í gildandi dýrtíðarlögum eru heimiluð. Þau gátu bjargað í þessu tilfelli, en landssjóður getur ekki borið þau. En lánastefnuna verð jeg þó að telja rjetta, með breyttum lánsskilyrðum. Þessi styrkur er humbug, sem þeir einir nota og njóta, sem alls ekki þurfa þess. Hinir koma á landssjóðinn hvort sem er.

Þótt við sjeum ekki í vopnagný, þá erum við samt í bardaga, sem útheimtir það, að hver einasti maður leggi fram sitt ítrasta. Enginn er eins fær um það og sveitarfjelagið að tæma gjaldþolið, þar sem það er til. Það er talið mikið, ef lagt er á eignamann að gjalda 1/5 teknanna í útsvar. En þótt hann ætti að láta mestallar tekjurnar, þá er það ekki nema sanngjarnt, þegar aðrir verða að ganga á höfuðstól sinn. Þetta gjaldþol geta sveitirnar fyrst gengið á, og landssjóður á ekki að hlaupa undir bagga meðan það er til. Það er nefnilega þetta, sem dýrtíðarráðstafanir þingsins verða að bera með sjer, að það liggi í þeim hvöt fyrir sveitarfjelögin til að bjargast af eigin mætti meðan kostur er á, og að hrinda þeirri hvöt er rangt.

Það var tekið fram af háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.), þegar hann mælti fyrir brtt. sínum, að á sama stæði, hvort landssjóður lánaði eða gæfi, þegar hann ætti lítið fje. Það er sama sem að segja, að maður þurfi ekki að fá skuld sína borgaða, ef hann á lítið til. Nei, því fátækari sem landssjóðurinn er, því meiri þörf er á, að hann fái borgað aftur það fje, sem hann lætur úti. Við höfum alls ekki ráð á að fleygja fje úr landssjóði, sem ekki er hægt að treysta að ekki fari í þá staði, sem þess er ekki þörf.

Fyrri brtt. háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árha.) álít jeg alveg sjálfsagða. Ef sú hjálp, sem frv. býður fram, á að koma að notum, má alls ekki takmarka þá upphæð, er sveitarstjórnir mega leggja fram. Það er hugsunarlega rjett að breyta frv. í þá átt að láta þær ráða. Annars verður þessi hjálp svo takmörkuð, að útkoman verður sú, að þau mega ekki bjarga sjer sjálf.

Annars mun jeg sýna með atkv. mínu, hvernig jeg lít á einstakar till. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir mikið talað um till. sína. Ekki mun jeg nú greiða henni atkv., fremur en áður. Jeg hefi svo sáralitla trú á þessum ráðstöfunum um dýrtíðarvinnu, sem stjórnin á að sjá um, eftir undangenginni reynslu um það. Get jeg þess vegna ekki greitt þeirri till. atkv., fremur en flestum öðrum.