04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Magnús Torfason:

Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls um þetta efni, er hjer liggur fyrir, en það hefir farið svo, að jeg er neyddur til þess.

Þegar frv. þetta kom til háttv. Nd. frá háttv. Ed., þá stóð Björn bankastjóri Kristjánsson upp og las upp yfirlýsingu þess efnis, að hann gæti ekki sætt sig við frv., eins og það var orðað hjer.

Eins og gefur að skilja, þá kom þetta mjög flatt upp á nefndina, því að nefndarálitið var sjerstaklega borið undir hann, en þó verð jeg að segja, að ástæður bankastjóra og þingmannsins til þess, að hann gæti ekki sætt sig við frv, voru enn þá undarlegri. Hann sagði, að þar sem sá skilningur af sumum hefði verið lagður í frv., að eftirlaunin væru því skilyrði bundin, að hann ljeti af stjórn bankans 1. júlí þ. á., þá treysti hann sjer ekki til að ganga að neinu slíku skilyrði og gæti því ekki unað við lögin, þannig úr garði gerð. En eins og allir heilskygnir menn sjá, þá er engin ástæða til að draga þessa ályktun út úr áliti allsherjarnefndarinnar hjer og ekki heldur af umræðunum hjer í hæstv. Ed., með öðrum orðum, þessi skilningur bankastjórans lýsir ekki öðru en því, að hann er orðsjúkur maður, en það er sjúkdómur sem enginn, allra síst þingmaður, má vera haldinn af.

Í nefndarálitinu er skýrt frá því, að meiri hluti nefndarinnar geti ekki sætt sig frv. með þeim búningi, er það hlaut í háttv. Nd, og verði „því fremur“ að leggja áherslu á það, að lögin öðlist strax gildi.

Það er fyrir orðunum „því fremur“, sem jeg vil gera nokkur skil.

Það stendur svo á þessu, að jeg fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, að bankastjórinn er sjúkur. Öll framkoma hans í bankanum síðan hann hvarf í hann aftur sýnir, að hann er sjúkur og að alt hugsanalíf hans er sjúkt, enda er það vitanlegt, að hann hefir ekki gegnt starfi sínu nema með höppum og glöppum.

Það er frágangssök fyrir bankann að hafa sjúkan yfirmann á þessum vandræðatímum. Bankinn verður að hafa þá menn eina, sem hafa alla hæfileika sína óbilaða, eru með fullum kröftum og fjöri; menn, sem eru í einskonar millibilsástandi eða sjúkir, duga þar ekki. Þingið tekur því á sig mikla ábyrgð, ef það samþykkir ekki brtt. nefndarinnar, ábyrgð, sem það fær ef til vill ekki undir risið, því að það er nauðsynlegt, að bankinn fái sem fyrst færa og góða starfskrafta.

Það hagar nú svo til, að bankann og landið vantar starfsfje. Það er því nauðsynlegt, að bankastjóri fari utan í fjárleitir; en ef svo verður, þá eru ekki eftir nema tveir stjórnendur bankans, og annar þeirra sjúkur. Það sjá því allir, að það er nauðsyn, að hann fái lausn sem fyrst — sem allra fyrst, Og taka vil jeg það fram, að bankastjórinn þarf, eftir strítt og erfitt starf, að fá frið sjálfs sín vegna, og mjer finst rjett og skylt, að háttv. deild styðji að því, að það megi verða sem fyrst.

Jeg hefi orðið var við það, að jeg hefi verið bendlaður við þetta mál á þann hátt, að jeg ætlaði mjer þá stöðu þá, er losnar, er Björn bankastjóri Kristjánsson lætur af starfi í Landsbankanum. Jeg hefi margoft tekið það fram, í viðræðum við menn, að ekkert sje í þessu hæft. En þar sem jeg hefi orðið þess var, að ekki er hægt að kæfa þennan orðróm niður, þá vil jeg lýsa yfir því hjer í háttv. Ed., að mjer hefir aldrei dottið í hug að sækja um þessa stöðu. Jeg veit það líka, að hver maður, sem nokkuð þekkir til kjara minna, hlýtur að sjá, að það gæti ekki komið til mála.

Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg hefi ekki með þessum orðum viljað minka Björn bankastjóra Kristjánsson. Hann hefir verið mjög nýtur borgari að mörgu leyti, en honum er það ekki sjálfrátt, þótt hann sje sjúkur.