04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Magnús Torfason:

Jeg þarf ekki að svara háttv. þm. Vestm. (K. E.) mörgum orðum. Hann hóf ræðu sína með því að segja, að jeg hefði farið með mishermi, en hann skýrði aldrei frá, í hverju þetta mishermi hefði verið fólgið, enda mundi það hafa verið allörðugt verk. Jeg hafði fyrir framan mig yfirlýsingu þá, er bankastjórinn gaf í háttv. Nd. og háttv. þm. (K. E.) las upp, og hljóðaði hún, eins og vita mátti, eins, svo að þar gat ekki verið um neitt mishermi að ræða.

Jeg skal geta þess, að undir umræðunum í háttv. Nd. var því lýst yfir skýrt og skorinort, að allsherjarnefnd Ed. hefði ekki lagt þann skilning í þessa grein, að Birni bankastjóra Kristjánssyni væri skylt að fara frá sem bankastjóra 1. júlí. Þetta var tekið skýrt og skilmerkilega fram, að minsta kosti tvisvar undir umræðunum, og nefndinni gat vitanlega aldrei komið til hugar, að hann færi frá öðruvísi en venja er til, það er að segja, sækti um lausn frá starfinu, eða yrði veitt lausn í „náð“, sem svo er kallað.

Og ekki fæ jeg skilið, hvernig unt er að leggja annan skilning í greinina en þann, er semjendur hennar, allsherjarnefndin, hefir margtekið fram að væri hinn rjetti, og það því fremur, sem frv. er flutt að tilhlutun bankastjórans og hann óskaði að losna sem fyrst frá bankanum. Var því breytingin gerð honum í vil.

Annars er ekki ástæða til að taka mikið tillit til allsherjarnefndar háttv. neðri deildar, eða þess, sem hún hefir gert í þessu máli. Við vitum, að þegar málið kom hingað, þá var það alveg undirbúningslaust, og ekkert af þeim skilyrðum fyrir hendi, sem eftirlaunalögin tilskilja. Það var ekki upplýst, hvort bankastjórinn óskaði eftir þessum eftirlaunum, og allsherjarnefndin þar hafði alls ekki átt tal við bankastjórann um málið. Þessu var fyrst kipt í lag hjer og þá borin fram brtt., enda var hún rjett og sjálfsögð, bæði frá sjónarmiði Björns bankastjóra Kristjánssonar og Landsbankans.

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) var að tala um það, að gangur málsins hjer á þingi hefði verið óhreinn. Það kann vel að vera, að svo sje, en gangur þessa frv. er ekki óhreinni en fjölda margra annara, og það er altítt, að það liggja misjafnar ástæður til þess, að menn greiða atkv. með einhverju máli. Og þótt surnir leggi meiri áherslu á frv. þetta vegna bankans sjálfs, þá sje jeg ekki, að það sje neitt slæmt við það, eða að það sje bankastjóranum til hneisu.