04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Kristinn Daníelsson:

Jeg vil þegar taka það fram, að jeg get ekki fylgt dagskrá þeirri, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) ber fram. Báðar þingdeildirnar hafa þegar samþykt aðalefni frv. Þingviljinn er ábyggilega sá, að bankastjóranum sjeu nú þegar ákveðin eftirlaun frá þeim tíma, þegar hann lætur af starfi.

Annars var ýmislegt rjett af því, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði. Hann sýndi fram á, að meðferð þessa máls hefir ekki verið sú, sem vera átti, og þinginu ekki til sóma.

En einkum stóð jeg upp út af því, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að bankastjórinn sje sjúkur maður. Með þeirri hugsun, sem það virtist fram borið, vildi jeg ekki, að það sjúkdómsvottorð fengi að koma hjer fram ómótmælt, en tel svo enga þörf á að fara um það fleiri orðum.

Um brtt. skal það sagt, að það er tæplega viðeigandi að fara að hrekja nú málið til sameinaðs þings. Eins og mönnum er kunnugt, þarf 1/3 atkvæða til þess, að frv. nái samþykki þar; gæti því sá málarekstur orðið málinu að falli, þótt tilgangurinn eigi ekki að vera sá, og þannig orðið til þess að koma í veg fyrir, að glöggur þingvilji í þessu máli nái fram að ganga.

Fleira skal jeg ekki leggja til málanna. Jeg vildi að eins ekki draga dulur á, að jeg álít ekki viðeigandi, að málinu sje flækt lengur, og ekki annað samboðið en að samþykkja það nú til fulls