04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

20. mál, eftirlaun handa Birni bankastjóra Kristjánssyni

Magnús Kristjánsson:

Það er háttv. þm. Snæf. (H. St.), sem hefir gefið mjer tilefni til að segja nokkur orð. Jeg er ekki ánægður með dagskrá hans. Það er búið að eyða svo miklum tíma í þetta mál, að full ástæða er til að ganga frá því fyrir fult og alt á þessu þingi. Bankastjórinn álítur sig ekki færan um að gegna starfi sínu lengur, vegna heilsubrests. Honum ætti sjálfum að vera kunnugast um það. Úr því að hann hefir fundið til þessa sjúkleika, er skylt, að honum verði sjeð fyrir sæmilegum eftirlaunum. Vegna þessa tel jeg þannig lagaða dagskrá, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) ber fram, ekki heppilega. Ef það þing, sem nú stendur yfir, er ekki fært um að taka ákvörðun í þessu máli, er síst ástæða til þess að halda, að sömu þingmennirnir verði færari um það þegar þeir koma saman næst. Drátturinn væri líka óhæfilegur ef svo skyldi fara, að bankastjórinn ljeti nú þegar af embætti. Jeg skal því leyfa mjer að bera fram aðra dagskrá. Deildin hefir þá um að velja tvær dagskrár, tillögu neðri deildar og brtt. allsherjarnefndar, og auðvitað mæli jeg fram með minni eigin tillögu. Í henni er gert ráð fyrir, að bankastjóranum „verði árlega greiddar 4.000 kr. af fje Landsbankans sem eftirlaun, frá þeim degi talið, er hann lætur af bankastjórn“. Einhver kann að koma með þá mótbáru, að ekki sje viðeigandi að minst sje á fjárhagsatriði í rökstuddri dagskrá. En það er misskilningur, og það því fremur, sem hjer er ekki um ráðstöfun á landsfje að ræða.

Jeg veit ekki, hvernig atkvæðagreiðslunni verður hagað; það er á valdi forseta. En jeg vænti þess, að háttv. deildarmenn hugsi sig um tvisvar áður en þeir fella málið með öllu. Mín dagskrá miðar ekki að því, að draga málið til hliðar, heldur er hún endanleg ákvörðun í því. Dagskrána hefi jeg afhent forseta.