17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Gísli Sveinsson:

Þessi brtt. á þgskj. 136, sem við háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) berum fram, virðist ekki falla öllum háttv. þm. jafvel í geð. Hæstv. stjórn hefir að vísu tekið henni mjög líklega, og býst jeg ekki við, að neitt sjerstakt verði haft á móti henni frá þeirri hálfu, því að hún liggur mjög á sömu braut og stjórnarfrv. Það, sem hún á við sjerstaklega, er að gera dálitla stigbreytingu á upphæðinni, sem veitt er, svo að hún komi rjettlátlegar niður. Aðalbreytingin er sú, að við viljum styrkja meir, eftir því sem sveitarfjelagið hefir tekið nær sjer og leggur meira á sig. Við viljum hins vegar ekki, að veittur sje styrkur úr landssjóði móts við einhverjar smáupphæðir, sem ráðstafað kynni að verða í þessu skyni. Okkur finst, að þótt eitt sveitarfjelag verji til þessara ráðstafana upphæð, sem ekki fer yfir 5 kr. á mann hvern í sveitinni, þá sje það ekki svo tilfinnanlegt, að ástæða sje til að bæta það upp að nokkru. En þá fyrst, er upphæðin hækkar, verður það sjálfsagt, því að þá er þessu fjelagi fremur þörf hjálparinnar. Við höfum sett takmarkið 5 krónur. Útkoman verður þannig sú, að með þessu er veittur meiri styrkur þeim, sem hafa lagt mikið að sjer, heldur en með frv. því, er fyrir liggur. Það er því rangt hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að þetta sje of lítið, miðað við stjórnarfrv. Það er í raun og veru meiri styrkur og kemur betur niður, að því er sjeð verður.

Jeg skal geta þess um 1. brtt. á þessu þgskj., staflið a, að hún er borin fram sökum aths., sem kom fram við 2. umr. málsins, frá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). Þar sem talað er um venjuleg útgjöld, vildu menn halda, að væri meint gjaldahæð á hverjum tíma. Og út frá þessum skilningi töluðu margir háttv. þm., og þar á meðal þessi háttv. þm. (E. A.), sem sýndi fram á, að ekki yrði vitað með vissu, við hvað væri miðað, hvort heldur útgjaldaupphæð síðasta árið, eða meðaltal fleiri síðustu ára. Vildum við með till. þessari slá föstu ákvæði um þetta, svo að það yrði ábyggilegt. Og í þeim tilgangi er till. komin fram.

En nú standa sakir svo, að skilningur hæstv. stjórnar og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) á þessu atriði er líklega ekki rjettur. Þar er ekki átt við útgjaldahæð, heldur lögmæta útgjaldaliði, og fyrir utan þessi reglulegu eða „ordinæru“ gjöld veita lögin því heimild til „extra-ordinærra“ gjalda.

Jeg hygg, að önnur rjett meining geti ekki veriðíþessu, og ef hæstv. stjórn vill leggja þennan skilningíákvæðið, getum við flutnm. tekið tillöguna aftur.

Jeg skal ekki fara langt út í það, sem háttv. þm. hafa látið uppi sem greinargerðir fyrir atkv. sínum; jeg býst við, að það verði til lítils að reyna að sannfæra þá. Jeg verð þó að fara nokkrum orðum um sumt af því, sem fram hefir komið.

Jeg ætla þó ekki að hætta mjer út í heimsádeilu háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) um fólkið, blöðin og stjórnina, enda býst jeg við, að hann hafi lent út á þeim hálu brautum af tómu „ergelsi“, en ekki hafði jeg ætlað honum slíkt meyrlyndi, að það ræki hann til þess að reka rauna sinna hjer í þingsalnum.

En till. hans, að fella burt 2. gr. úr frv., virðist mjer vera fullkomlega meiningarlaus, ef á annað borð á að skilja eftir nokkuð af því, því að sje hann á móti frv. svo framarlega sem till. hans falla, þá hefði það verið hreinlegra fyrir hann að leggja til, að frv. yrði felt alt.

Um 3. brtt. háttv. sama þm. (E. Árna.) hefir bæði hæstv. stjórn og aðrir háttv. þm. rjettilega tekið fram, að hana má alls ekki samþ. Og það er ekki af forminu einu, sem hæstv. forsætisráðh. aðallega mintist á, að till. grípi fram fyrir hendur forstjórnar landsverlunarinnar, því að landsstjórnin ber ábyrgð á framkvæmdunum, hvað verslunarmálin snertir, hjer eftir sem hingað til. Hitt er aðalatriðið, að till. er hættuleg fyrir landsverslunina, og nái till. fram að ganga, hefir líka stjórnin, hver sem hún verður, algerlega óbundnar hendur; henni eru engin takmörk sett um framkvæmd þessa ákvæðis, en slíkt má ekki eiga sjer stað. Stjórninni væri með því líku ákvæði heimilað að lána takmarkalaust, hvort sem neyð er fyrir hendi eða ekki, og hafi hún slíka heimild, getur hún vitanlega ekki gert upp á milli sveitarfjelaga; þau hafa öll aðgang að stjórninni með vörulán, og sje einu þeirra fullnægt, er það gefinn hlutur, að hin koma á eftir.

Jeg get því tæplega treyst nokkurri stjórn til þess að fara með slíka heimild, og mjer þykir það næsta ólíklegt, að háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) geti gert sjer von um, að slík till. sem þessi verði samþ.

Þá er brtt. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Kemur hjer aftur fram hið sama og hjer var heilsað fyrir skemstu, og það ekki í endurbættri útgáfu, og ekki tel jeg brtt. þessa bæta 6. gr. frv. að neinu leyti, enda var hún sæmilega skýr áður, tel jeg. Og sjálfum ætti mjer að vera kunnugast um það, þar sem hún er samin af mjer, en hvað sem um það er, þá hefir öðrum háttv. þm. borið saman um það, að hún sje fullskilmerkileg.

Annars er það Flóaáveitan, sem háttv. þm. (S. S) vill enn þá koma að, og mun að vísu enginn lá honum það. En jeg lít svo á, sem slík fyrirtæki sjeu ekki í beinar þarfir framleiðslunnar, en væri nú svo, að slík ákvæði sem þessi ættu hjer heima, þá væru það miklu fremur smærri vatnsveitur, sem tiltækilegt væri að taka ákvæði um að skyldu framkvæmast sem dýrtíðarvinna.

Hitt álít jeg að ekki komi til mála, að fara nú að ráðast í að byrja á Flóaáveitunni, eða nokkrum hluta hennar, og verða svo síðar að taka upp aðrar aðferðir og annað fyrirkomulag við vinnuna. Slíku verki þarf að fylgja fram í heild. Annars má með sömu rökum sýna fram á hættu þá, sem felst í till. þessari og hinni, sem jeg hefi áður minst á. Heimildin, sem stjórninni er veitt með henni, er alt of viðtæk og ótakmörkuð. Og jeg treysti því ekki, að stjórninni geti ekki orðið það á að hlynna frekar að einu fyrirtækinu eða öðru, eða einu hjeraði fremur öðru, ef slík heimild er veitt.

Jeg get t. d. vel hugsað mjer, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gæti unnið stjórnina til þess að ráðast í Flóaáveituna. (S. 8.: Er ekki inni undir hjá henni). Nei, en hann getur orðið það; það getur jafnvel farið svo, að hann setjist sjálfur í ráðherrasessinn.

Þá var háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) að gera grein fyrir atkv. sínu. Virtist mjer hann vera helsti þungorður um till. þessar.

Jeg ætla mjer ekki að fara að bera blak af till. hæstv. stjórnar, en þó verð jeg að leiðrjetta misskilning, sem kom fram hjá þessum háttv. þm. (Þór. J.).

Hann kvað það ekki ná neinni átt að ætla að hjálpa með slíku lítilræði sem 10-15 kr. á mann.

Jeg hefi orðið þess var var, að sumir fleiri hafa skilið þetta ákvæði svo, sem ekki megi koma hærra á mann, af þeim sem þurfandi eru. En nú er engin ástæða til þess að gera ráð fyrir, að allir verði þurfamenn. Og hjer er að eins um það að ræða, hve mikið megi koma á nef hvert, til þess að miðla af þeim, sem í nauðir rata, og getur það orðið sæmileg hjálp til hvers eins þeirra, þar sem ekki verður gengið út frá því, að neyð verði almenn á landinu.

Annars má það undarlegt heita, að þeir skuli nú líta smæstum augum á hjálp þessa, sem altaf hafa manna fremstir viljað klípa allan dýrtíðarstyrk við neglur sjer. Líka virðist það undarlegt, að þeir hinir sömu skuli vilja fara lánaleiðina, sem þó eftir reynslu síðastliðins árs virðist með öllu ófær, vegna þess að hún er blátt áfram glæfraleg, þar sem ekki er hægt að setja neinar skorður við því, að stjórn, sem annars fer gálauslega fram, kynni ekki að beita gerræði eða rasa fyrir ráð fram.

Frá háttv. 1. þm. G. K. (B. K.) kom fram sá dómur um lánaleiðina við fyrri umræður málsins, að það væri landssjóður einn, sem ætti að lána; bankarnir mundu neita um harðærislán, þar eð þeir mættu ekki lána nema gegn vissri endurborgun. Þetta síðara atriði er að vísu alveg rjett. En hver getur sagt, að lán þessi yrðu ekki endurborguð? Þvert á móti tel jeg það víst, að sveitarfjelögin endurborgi harðærislán sín, svo framarlega sem þau flosna ekki upp með öllu. Og það eru ekki nema allra stærstu hörmungar, sem leggja heil sveitarfjelög í eyði, naumast annað en sandur og sjór, sem koma þeim í kalda kol um tíma eða eilífð.

Þess vegna lít jeg svo á, að bankarnir geti lánað sveitarfjelögunum, enda þótt hallæri sje. Þar standa að veði allir hreppsbúar og eignir þeirra.

Mín skoðun er því sú, að það sjeu bankarnir, sem fyrst og fremst eiga að hlaupa undir bagga með sveitar- og sýslufjelögum, en hitt er annað mál, hvort þeir hafa fje til þess á reiðum höndum.